151. löggjafarþing — 74. fundur,  25. mars 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[19:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þau áhrif sem Covid hefur, eins og ég skil hann, á heilbrigðiskerfið okkar og þá kannski sérstaklega þegar um er að ræða, eins og var í fyrra á tímabilum, að tilteknar valkvæðar aðgerðir séu óheimilar um langt skeið. Það hefur áhrif á fólk sem er að bíða eftir aðgerðum og við sáum það gerast. Hv. þingmaður bendir réttilega á að fólk er á biðlista eftir að komast á biðlista og það opnar augu manns fyrir því að biðlisti er yfir höfuð ekkert sérstaklega góður mælikvarði á það hver staðan er. Það getur verið fólk sem bíður eftir því að komast þangað en svo getur líka verið að fólk bíði á fleiri en einum stað og svo getur verið að fólk bíði og vilji svo ekki nákvæmlega það úrræði sem því býðst og vilji eitthvað annað o.s.frv. Við erum með allar mögulegar tegundir af biðlistum. Mín áhersla og hugsjón hefur svolítið verið sú að við þurfum að hafa miðlægan og gagnsæjan biðlista sem er þannig að fólk geti bara séð hversu löng bið er hér og hversu löng bið er þar. Það getur verið bið eftir liðskiptaaðgerðum eða öðrum aðgerðum, ég veit að hv. þingmaður hefur sérstaklega verið að hugsa um þær aðgerðir en ekki síður um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn. Það er verið að undirbúa þessa miðlægu biðlista núna hjá embætti landlæknis og það hefur staðið yfir um hríð. Við höfum öll þurft að víkja okkur töluvert að öðrum verkefnum undanfarið eins og Covid-tengdum málum þannig að landlæknir hefur aldeilis verið upptekinn við það en ég býst við að sjá í einhverja svona miðlæga biðlista hjá embætti landlæknis von bráðar. Ég hugsa að það gerist áður en þetta kjörtímabil er að baki. Þá höfum við betra og öflugra stýritæki í þessu af því að það er það sem okkur vantar.