152. löggjafarþing — 74. fundur,  16. maí 2022.

aðkoma Alþingis að sóttvarnaráðstöfunum í heimsfaraldri.

362. mál
[16:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmar Guðmundsson) (V):

Virðulegur forseti. Við ræddum náttúrlega talsvert um það á meðan faraldurinn geisaði hversu mikil aðkoma Alþingis ætti að vera að þeim sóttvarnaráðstöfunum sem gripið var til. Það er ekkert skrýtið að við værum svolítið mikið í þeirri umræðu. Þær aðgerðir sem gripið var til voru verulega íþyngjandi. Það var verið að skerða mannréttindi fólks. Það var verið að skerða atvinnufrelsi einstaklinga, fundafrelsi. Við þekkjum þetta allt, allar þessar aðgerðir sem gripið var til. Faraldurinn stóð lengi yfir og við erum kannski ekki alveg búin að bíta úr nálinni með hann enn þá en það er fínt að ræða þetta vegna þess að við erum auðvitað að fara að taka umræðu um endurskoðuð sóttvarnalög. Mín hugleiðing um þetta efni er svolítið sú að þegar faraldur geisar svona lengi og það þarf svona oft og mikið og í langan tíma að grípa til takmarkana á mannréttindum þá fari betur á því að þingið veiti slíkum ráðstöfunum einhverja blessun, bæði vegna þess að þá er sterkara land undir fótum gagnvart almenningi sem er þolandi í þeim aðgerðum og svo er líka bara spurning um virðingu þingsins, að það sé með í ráðum þegar svona stórfelldir atburðir skekja landið og heimsbyggðina alla í raun og veru. Í greinargerð með drögum að frumvarpi til laga um sóttvarnaaðgerðir sem var kynnt í samráðsgátt var setning sem ég hjó eftir og fór mjög mikið í taugarnar á mér og mér fannst hún draga niður virðingu Alþingis þótt ég sé algjörlega sannfærður um að það hafi ekki verið ætlunin. Þar sagði:

„Enn fremur er það mat starfshópsins að með því að færa þessar ákvarðanir til Alþingis yrði alger eðlisbreyting á forsendum ákvarðana frá því að byggjast í grunninn á faglegum sjónarmiðum yfir á vettvang stjórnmálanna.“

Þetta finnst mér auðvitað ekki ganga upp vegna þess að ráðherrar og ríkisstjórn eru auðvitað vettvangur stjórnmálanna. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Er ráðherra sammála því mati starfshópsins sem ráðherra skipaði 18. júní 2010 að þessar ákvarðanir allar séu ekki teknar á vettvangi stjórnmálanna? Þá ég við þessar mannréttindaskerðingar sem við þekkjum svo vel.

2. Má samkvæmt þessu ætla, og þá er ég að vísa í þessi ummæli starfshópsins, að óæskilegt sé að pólitískir ráðherrar fjalli um málið á ríkisstjórnarfundum því þá séu ákvarðanir ekki lengur byggðar á „faglegum sjónarmiðum“?

3. Er ráðherra þeirrar skoðunar að þær ráðherranefndir sem stofnaðar hafa verið til að samræma viðbrögð við heimsfaraldrinum, þvert á ráðuneyti, séu ekki „vettvangur stjórnmálanna“?

4. Telur ráðherra að þeir alþingismenn, 51 talsins, sem ekki eru ráðherrar, séu síður hæfir til þess að taka tillit til „faglegra sjónarmiða“ við ákvarðanatöku en þeir 12 alþingismenn sem gegna ráðherradómi?

Og síðan að lokum: Mun ráðherra styðja hugmyndir þess efnis að Alþingi Íslendinga, og þá meina ég allt þingið, ekki bara velferðarnefnd, þurfi að staðfesta sóttvarnaráðstafanir sem gripið er til ef faraldur hefur dregist á langinn og þess sé gætt að vald ráðherra til að bregðast skjótt við yfirvofandi ógn, sé ekki skert.