139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

471. mál
[19:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Um daginn hafði samband við mig Íri sem tók þátt í baráttunni á Írlandi þegar Írar börðust gegn því að samþykkja Lissabon-sáttmálann. Mönnum blöskruðu þeir miklu fjármunir sem Evrópusambandið setti þar beint inn í baráttuna, keypti miklar auglýsingar og það var greinilegt að það voru nógir fjármunir því að það mátti ekki gerast að Írland felldi Lissabon-sáttmálann. Það var orðið vandræðalegt fyrir Evrópusambandið og þessi ágæti maður líkti þessu í seinna skiptið að það hefði verið sambærilegt hjá þeim sem börðust gegn Lissabon-sáttmálanum þar, þetta væri eins og að keppa á reiðhjóli við mann á nýjum Ferrari. Vegalengdin væri sú sama sem menn ættu að komast, en undir annan aðilann væri keyptur nýr Ferrari erlendis frá en hitt liðið þyrfti að hjóla. Þetta er mikið áhyggjuefni, sérstaklega þegar opinberar stofnanir á borð við Háskóla Íslands eru farnar að sækja í þessa sjóði. Þetta er ekki sú lýðræðislega nálgun sem við Íslendingar viljum hafa á þessum málum.

Hér hefur verið talað um að það verði að útkljá málin lýðræðislega, fá þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá er mikilvægt að það sé gert á jafnréttisgrunni. Við þekkjum lyfjapróf á Ólympíuleikunum. Þau eru gerð til að kanna hvort menn keppa á jafnréttisgrunni. Þarna er hins vegar dælt undir annan aðilann að utan. Það er mikið atriði og ég fagna því að hv. þingmaður verði í því liði að berjast gegn því ójafnvægi sem klárlega verður á umræðunni.