149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski bara hægt að fá vísbendingu í þessari lækkun úr 0,225% í 0,16% og sjá af því að þetta mun ekki gjörbylta vaxtaumhverfinu og sömuleiðis af fjárhæðinni sem slíkri, 1 milljarður, þetta mun heldur ekki valda neinum straumhvörfum. En þetta er skref í rétta átt að mínu áliti. Það er sömuleiðis rétt sem bent er á að þetta er ekki eiginlegur skattur. Hann rennur ekki í ríkissjóð heldur er hann til að byggja upp varnir fyrir fjármálakerfið inn í framtíðina. Við teljum hins vegar að það sé svigrúm til þess að draga úr þessum vörnum með vísan í allt annað sem hefur verið gert og vísan í sterka stöðu sjóðsins.

Þetta er að mínu áliti nokkuð varfærið skref. Því var velt upp í meðferð þessa máls hvort við ættum að ganga lengra en ég tel að við eigum að stíga varlega til jarðar í þessu. Ég tel hins vegar á sama tíma að þetta sé rétt skref og nauðsynlegt, það sé óþarfi að hafa gjaldið jafn hátt og það er í dag og hef verið að færa fyrir því hér rök.

Það er síðan alltaf matsatriði hvort menn geta sýnt fram á það í beinu framhaldi af breytingum sem þessum hvort þær skili sér til neytenda. Þetta er ekki nein grundvallarbreyting eins og ég nefndi áðan, en það munar samt um sérhvert 0,05% jafnvel, yfir margra ára tímabil. Eftir því sem fjárhæðirnar eru hærri margfaldast þetta upp. Þetta er eitt af mörgu sem máli skiptir. Það getur auðvitað gerst hvort sem er, eins og spurt var um í fyrri fyrirspurn, á vaxtahlið innlána eða í útlánum.