149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

breyting á sveitarstjórnarlögum.

90. mál
[18:37]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur andsvarið. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar að störf sveitarstjórnarmanna eru afar mikilvæg og ég er ekki viss um að allir sveitarstjórnarmenn átti sig á því að sveitarstjórnir eru fjölskipað stjórnvald og gera sér ábyggilega ekki alltaf grein fyrir þeirri ábyrgð sem þeir bera í ljósi þess. Það finnst mér vera önnur umræða. Mér finnst það ekki koma fjölda fulltrúanna endilega við og ef það er þannig að þeir fái ekki nægilega vel greitt eða nægilega mikil tækifæri til að sinna sínum störfum þá finnst mér það vera annað vandamál, ef svo má segja. Það er þannig að um þriðjungur af umsvifum hins opinbera er á hendi sveitarfélaganna, þarna eru því gríðarlega stórar upphæðir, fjárhagslegar, og mikilvæg félagsleg verkefni sem verið er að vinna.

Við höfum farið þá leið í kosningum til Alþingis að þar erum við með 5% þröskuld á landsvísu. Ég hef velt fyrir mér, a.m.k. í stærri sveitarfélögum hvort það væri kannski eðlilegri þröskuldur að skoða, að 5% íbúa þeirra sem mæta á kjörstað í stóru sveitarfélagi, ég segi sveitarfélagi yfir 10.000, 15.000, 20.000 manns, eitthvað svoleiðis, að þau ættu að geta verið viss um það að rödd þeirra fengi að heyrast í sveitarstjórninni með kjörnum fulltrúum. Þannig kæmumst við í rauninni fram hjá þeim vanda að þurfa endilega alltaf að vera telja, þá væri það hreinlega byggt inn í einhvers konar prósentureglu.

Aðeins að lokum varðandi nefndirnar sem hv. þingmaður minntist á, þá veit ég að þingmaðurinn veit að nefndakerfi sveitarfélaganna byggir á fjölda fulltrúanna sem er í sveitarstjórn. Ef við fækkum fulltrúum í sveitarstjórn mikið (Forseti hringir.) þá mun líka fækka í nefndakerfinu og þar með mun lýðræðisleg þátttaka minnka.