151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður nefnir hér er auðvitað hluti af þessari mögulegu sviðsmynd — allir tala um sviðsmyndir í dag — sem gæti dregist upp þegar við erum búin að ná markmiðum okkar að því er varðar bólusetningu í þessari lotu. Því miður höfum við ekki fulla yfirsýn yfir það hvernig staðan verður að því er varðar stökkbreytt afbrigði o.s.frv., hvað varðar virkni einstakra bóluefna gagnvart slíkum afbrigðum, hvað varðar síðan þróun og áframhaldandi þróun bóluefna og hvað varðar mögulegt samstarf um framleiðslu og þróun bóluefna, til að mynda á Norðurlöndum. Alls konar hlutir af þessu tagi hafa verið í umræðunni. Það er vel hægt að hugsa sér samstarf sem væri af einhverju öðru tagi en nákvæmlega núna. Ég held að allir séu með augun opin gagnvart þessu.

Ég nefndi það sérstaklega í gær í umræðu um fjármálaáætlun, og mér finnst rétt að flagga því í umræðu um hana og líka hér í umræðu um Covid-19, að mér finnst meiri líkur en minni á því að við þurfum að ráðstafa fjármagni til kaupa á bóluefnum á árinu 2022. Mér finnst meiri líkur en minni á því. En enn og aftur vitum við ekki hvaða lyfjategund yrði þá best, hvaða framleiðandi myndi standast skoðun einna best, hvaða afbrigði við værum mögulega að eiga við á þeim tímapunkti og hver staðan verður. Við höfum vald á því að gera áætlanir en þegar öllu er á botninn hvolft er það veiran sem ræður þessu öllu saman.