152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:17]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Fyrr í kvöld kölluðum við nokkrir þingmenn eftir því að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra kæmi og yrði viðstaddur umræðuna enda er verið að gera ákveðnar grundvallarbreytingar á 33. gr. laga um útlendinga, atriðum sem heyra undir málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðherra en ekki dómsmálaráðherra. Því hefur hins vegar verið haldið fram líka hér í dag að þetta sé alls ekki svo, að 33. gr., um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd — að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu snúi bara í raun að þeim sem eru ekki lengur umsækjendur um alþjóðlega vernd vegna þess að umsóknum hafi verið synjað. Ég vil kannski fá að spyrja hv. þingmann hvort henni finnist þetta sannfærandi röksemdir um þessa tilteknu grein.