152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:35]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir samtalið. Ég tek undir að það var ýmislegt í þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér í dag sem stakk svolítið og vakti upp ákveðinn óhug og áhyggjur. Þar er líka viðhöfð ákveðin orðræða sem er bara mjög hættuleg, varðandi það að kerfinu okkar sé eingöngu ætlað að hjálpa þeim sem eru í raunverulegri neyð. Í fyrsta lagi er það ekki svo að hingað leiti einhver fjöldi fólks sem er ekki í raunverulegri neyð. Allt þetta fólk er í raunverulegri neyð. Það hvort fólk óttist um líf sitt eða sé að leita að betra lífi er ekki svart og hvítt. Fólk er ekki endilega að leita að betra lífi. Í fyrsta lagi vil ég bara segja að ég sé ekki vandamál við það að fólk leiti að betra lífi, ég tala nú ekki um þegar líf þess er algerlega óviðunandi. En það er eitt að leita að betra lífi og það er annað að leita að lífi yfir höfuð. Það að geta ekki búið börnum sínum öryggi og sjá ekki fram á að geta gert það um ókomna framtíð — eins og einn flóttamaður orðaði það: Ég er ekki fæddur flóttamaður, ég þurfti bara að fara. Ég er ekki fæddur flóttamaður, þetta eru ekki aðstæður sem ég hef fæðst inn í, og tel mig eiga að sætta mig við, heldur þurfti ég einfaldlega að fara. Þetta er stærsti gallinn, þetta eru stærstu mistökin sem Evrópa hefur gert í flóttamannamálum, þ.e. að læsa fólk inni í tilteknum ríkjum. Þetta kerfi hefur verið gagnrýnt ítrekað. Þetta er grundvallarvandinn við það kerfi sem Evrópa hefur byggt upp. Þar komum við aftur að því sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur talað um, þ.e. að við þurfum að laga okkar löggjöf að því sem gengur og gerist í Evrópuríkjum. Og við komum líka að því sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir nefndi áðan: Ætlum við að vera hluti af lausninni eða ætlum við að vera hluti af vandanum? Þetta er vandinn. Þetta er ekki lausnin.