138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Hann kemur inn á ýmis atriði sem hafa þarf í huga og verða í sjálfu sér alltaf eilífðarmál. Við getum aldrei búist við því að við séum búin að ljúka einhverju máli og sjáum fyrir endann á öllu í þeim efnum.

Hann minntist sérstaklega á að reyna ætti að afmarka það að þau skip og þeir sem kæmu inn í strandveiðarnar væru ekki samhliða í verslun með aflaheimildir nema þá í mjög afmörkuðum mæli og í frumvarpinu er reynt að girða fyrir það. Í fyrsta lagi er sagt að leyfi sé bundið við eitt skip og að sami aðili megi ekki vera með fleiri en eitt skip því að markmiðið er jú að þetta dreifist á aðila sem langar til að fara út í veiðar á þessum grunni.

Reyndar gildir þetta ekki fyrr en frá og með næsta ári því að ekki var talið fært að setja það inn á þetta ár en frá og með næsta ári verður óheimilt að veita fiskiskipum leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verði flutt af því. Og eftir útgáfu leyfis til strandveiða er skipum óheimilt að flytja frá sér aflamark þess árs umfram það sem flutt hefur verið til skipsins. Með þessu er verið að setja þessu meiri skorður og meiri ramma en auðvitað þurfum við líka að huga að því að það er ákveðin krafa um jafnræði og jafnræðisreglu þannig að það þarf að finna þetta bil. Engu að síður er þetta lagt til þarna til að koma til móts við þetta.

Herra forseti. Hv. þingmaður minntist á mörg önnur atriði og verður sjálfsagt að skoða þau í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.