151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér sóttvarnir og því miður, ég verð bara að segja það: Klúður, klúður, klúður. Því miður klúðraðist þetta. Við hefðum getað haft það svo gott. Við erum komin í þriggja vikna strangar sóttvarnaaðgerðir. En er það ekki eins og setja tappa í botnlausa tunnu þar sem eru landamærin? Því miður virðist staðreyndin vera sú að annar hver farþegi sem kemur til landsins er sóttur út á flugvöll samkvæmt nýjustu fréttum. Einbeittur brotavilji er talað um að þarna sé í gangi: Hvað segir þetta okkur? Jú, það segir okkur að það sem við erum að gera innan lands í dag mun ekki gagnast nema við lokum þannig að veiran komist ekki í gegnum landamærin. Til þess þarf ekki fimm daga sóttkví, ekki átta daga sóttkví heldur 12 daga sóttkví og skimun þegar fólk kemur, lokað inni í 12 daga þannig að það komist alls ekki út í samfélagið og skimun þegar því er hleypt út. Hvers vegna í ósköpunum er verið að tala um að setja bara fólk í sóttkví frá rauðum svæðum, ekki alla? Hvers vegna í ósköpunum er verið að láta íslenska ríkið borga fyrir þetta? Bretar sögðu að það kostaði 300.000 kr. að vera í sóttkví hjá þeim og létu fólk borga að fullu. Norðmenn láta borga að fullu. Er ekki kominn tími til að við hættum meðalhófinu, meðalmennskunni, berjum í borðið og stöðvum veiruna við landamærin? Það er eina leiðin til að við getum um frjálst höfuð strokið hér innan lands.