152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[23:08]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd nýtur áfram réttinda samkvæmt þessari grein þar til hann hefur yfirgefið landið en þó að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðunin varð endanleg á stjórnsýslustigi. Að þeim tímafresti loknum falla réttindin niður. Þó er ekki heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Í þeim tilvikum þegar umsækjandi er ríkisborgari EES- eða EFTA-ríkis eða kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsóknin hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus falla réttindin þó niður þegar Útlendingastofnun hefur synjað umsókn hans um alþjóðlega vernd.“

Það sem hér er verið að segja er að eftir 30 daga, þegar fólk fær endanlega úrlausn, að þá sé hvað? Þá er engin heilbrigðisþjónusta, engin framfærsla, ekkert húsnæði, ekkert. Hvað er verið að gera? Það er verið að auka við neyð fólks. Það er það sem er verið að gera. Það er verið að auka við þá neyð sem þetta fólk er í. Það er verið að svipta fólk þeim litlu réttindum sem það hefur hér á landi. 30 dagar eru ótrúlega skammur tími og að það sé verið að svipta fólk grunnréttindum er eiginlega bara ótrúlegt, að lagt sé til að gera það.

Hvað halda stjórnvöld að muni gerast í framhaldi af þessu? Ég vil vitna hér í umsögn Rauða krossins þar sem segir að þessir einstaklingar yrðu mjög berskjaldaður fyrir misbeitingu, mansali og ofbeldi. Heimilislausu fólki myndi fjölga og neyð aukast. Þá gætu líkur á skaðlegri hegðun og afbrotum aukist. Það mun verða álag á félagslegt kerfi sveitarfélaga og lögreglu sem verður þá meira í kjölfar breytinganna sem verið er að tala fyrir.

Hér er verið að segja, sem ég tel vera mjög líklegt miðað við sögur frá öðrum löndum þar sem fólki er ekki tekið fagnandi inn í landið, að það verði mikil neyð og afbrot muni aukast og ofbeldi, fólk fari í mansal og annað. Afleiðingarnar eru ekki fyrirséðar og alveg, fyrir mér, útpældar, að það sé ekki: Hvað gæti gerst og hvað er það versta sem gæti gerst og hverjar eru afleiðingarnar og hvernig ætlum við að takast á við þær? Höfum við efni á því að auka álag á félagslegt kerfi sveitarfélaga? Er það t.d. eitthvað sem við höfum efni á eða hvað getum gert? Er álagið ekki bara svakalegt eins og það er? Eða álag á lögreglu, aukin afbrot, er það ekki eitthvað sem við þurfum að spá í og skoða og greina áður en við tökum svona ákvarðanir án þess að vera með gögnin og rökin á bak við þetta og allar mögulegar afleiðingar þess að breyta hlutum til verri vegar? Mögulega, kannski ekki en það þarf alla vega að skoða og færa rök fyrir því af hverju þetta mun ekki gerast þegar t.d. Rauði krossinn segir að þeirra helstu áhyggjur séu að við séum að auka neyð, við séum að auka ofbeldi, við séum að auka afskipti lögreglu og afbrot í landinu með því að samþykkja þetta.

Auðvitað er pínu skrýtið að litlar eða stórar lagabreytingar geti gert þetta en hver er ábyrgð stjórnvalda á því að ganga úr skugga um að þetta sé ekki það sem er að gerast annars staðar í Evrópu? Það hvílir mjög mikil ábyrgð á stjórnvöldum að tryggja það og rökstyðja að þetta séu áhyggjur sem eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, sé eitthvað sem gæti alls ekki gerst. Þetta er það sem þarf að tala um og þetta er það sem þarf að svara. Af hverju mun þetta ekki gerast? Hvernig getum við verið viss um það? Hvað ætlum við að gera ef þetta gerist? Getum við brugðist við ef þetta gerist? Eins og félagslega kerfið er í dag þá held ég að svarið sé nei. En ég veit það ekki fyrr en ég hef gögnin á bak við mig og búið er að skoða þetta frá öllum sjónarhornum.

Alla vega lítur þetta þannig út fyrir mér að verið sé að halda því fram að með því að svipta fólk þjónustu þá fari þeir einstaklingar úr landi og fái þjónustu annars staðar. Þjónustu þá í Grikklandi, Búlgaríu, Ungverjalandi eða hvar? Ókei. Af hverju vill ríkisstjórnin ekki axla þá ábyrgð sem okkur ber sem hluti af alþjóðasamfélagi? Eigum við að skorast undan þeirri ábyrgð sem okkur ber? Ætlum við, eins og hefur verið sagt hér í kvöld, að vera partur af vandamálinu eða ætlum við að vera partur af lausninni?

Það er heldur ekki verið að huga að því hversu gott það er fyrir Íslendinga að fá ólíkt fólk til landsins, hversu mikill mannauður það er fyrir okkur að hafa mismunandi fólk sem kemur frá mismunandi þjóðfélögum og kennir okkur ýmislegt. Það minnsta sem við getum gert er að veita því sanngjarna og góða málsmeðferð, hvort sem það hefur fengið alþjóðlega vernd í öðru landi eða ekki. Það er það minnsta sem við getum gert.

Það eru margar fjölskyldur sem hafa t.d. fengið fjölmiðlaumfjöllun til að bjarga eigin skinni og vera í verndinni hér á Íslandi. Í sumum tilfellum hefur það tekist, ekki öllum. Sumum fallast hendur í þessari miklu baráttu við íslenska ríkið til að fá vernd. Það eru ekki allir sem fá fjölmiðlaumfjöllun. Það er fullt af fjölskyldum sem fara úr landi án þess að nokkur viti af því. Þannig að ef þú átt ekki sterkan bandamann, ef þú getur ekki borið þig eftir því sjálfur að komast í fjölmiðla eða annað þá áttu því miður bara ekki sömu tækifæri og aðrar fjölskyldur.

Þetta hreyfir við fólki. Af hverju hreyfir þetta við fólki? Nú, af því að þarna sjáum við fólkið. Þetta er ekki bara einhver tala á blaði sem er hægt að breyta með pennastriki. Þetta er fólk sem kemur til Íslands, lengst úti í Atlantshafi. Af hverju myndi fólk vilja koma hingað nema það þyrfti þess? Það er svo sturlað að við getum ekki bara tekið á móti fólki, sýnt því þá virðingu að taka á móti því og fara yfir mál þess og verið með rökstuðning á bak við okkur, hvers vegna eða hvers vegna ekki við myndum taka á móti umsókn þess, sýndum því alla vega þá virðingu að fara í gegnum málið og styðjum það, bara af því að við erum manneskjur, af því að við erum fólk. Það þarf ekki meiri ástæðu en það.

Það er mjög mikilvægt að tryggja það að við séum fjölmenningarsamfélag og setjum mannúð ofar skilvirkni í málefnum flóttamanna. Það er ástæða fyrir því að oft er hart barist fyrir þeim fjölskyldum og einstaklingum sem er neitað um alþjóðlega vernd hér á landi. Það er bara vegna þess að við áttum okkur á því að við erum að tala um fólk. Við viljum veita fólki sanngjarna og góða málsmeðferð þegar það sækir um að koma til landsins.