132. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2006.

Strandsiglingar.

251. mál
[11:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason má ekki taka það svo að ég sé að leggja það honum til lasts að hann hafi sótt í smiðju Evrópusambandsins. Það kemur mér á óvart hvað hann er vel að sér um þau mál, hann flytur hér í andsvari nýjar upplýsingar sem mér voru ekki kunnugar úr fórum Evrópusambandsins. Það gleður mig að þó að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé enn a.m.k. heldur á móti aðild skuli hún vera að skoða hvaða kosti það samband hefði í för með sér. Nýjar kannanir sýna að Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem nýtur miklu meiri stuðnings núna í könnunum en í síðustu kosningum, býr við það að meira en þriðjungur stuðningsmanna hennar er fylgjandi aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst því ekkert athugavert við að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli beita og tefla fram sömu rökum og Evrópusambandið.

Ég vil hins vegar geta þess að umhverfisrökin í þessu máli hafa orðið sterkari á síðustu árum og það eru þau sem hreyfa við mér. Mér finnst þau rök skipta miklu máli og ég er viss um, af því að fyrrverandi umhverfisráðherra Framsóknarflokksins er í salnum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, að hún mun örugglega hér í umræðunni á eftir kynna okkur viðhorf flokks síns til þessara mála.

Ég tel að í umræðu um tillögu af þessu tagi, sem er um það að ríkið beiti afli sínu í formi einhvers konar efnahagslegs hvata til þess að fá menn til þess að hefja þessa flutninga, hljóti það að vega miklu þyngra nú en áður að þessi leið er líkleg til þess að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við Íslendingar og heimurinn erum að lenda í vanda vegna þeirrar losunar. Hér er ágæt leið sem, eins og hv. þm. Jón Bjarnason bendir á, er (Forseti hringir.) meira að segja stimpluð af Evrópusambandinu.