135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

Fríverslunarsamtök Evrópu 2007.

448. mál
[14:44]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir allt sem fram kom í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um mikilvægi þess að við aukum umræðuna um framkvæmd EES-samningsins á þinginu. Í tilefni af þeim orðum þingmannsins að það sé mikilvægt að tillögum Evrópunefndarinnar verði hrundið í framkvæmd þá vil ég láta þess getið að forseti Alþingis hefur falið utanríkismálanefnd að gera tillögur um meðferð EES-mála á mótunarstigi á Alþingi. Ég mun sem formaður utanríkismálanefndar fylgja þeirri beiðni eftir og við hyggjumst reyna að koma meðferð EES-mála sem eru á mótunarstigi í traustan farveg fyrir lok vorþingsins. Í grunninn er ég þeirrar skoðunar að við eigum að fara eftir þeim reglum sem settar voru hér á árinu 1994. Við þurfum ef til vill að taka til skoðunar með hvaða hætti öll mál á mótunarstigi verða kynnt fyrir þinginu, að hve miklu leyti við hyggjumst gera þær kröfur til framkvæmdarvaldsins að allt verði þýtt og borið fyrir utanríkismálanefnd, sem mundi eftir atvikum funda með þingmannanefnd EFTA um EES-mál, að hve miklu leyti gerð verður krafa um að öll skjöl verði þýdd yfir á íslensku. Sama gildir um mál sem eru í pípunum en ekki er líklegt að kalla muni á lagabreytingar heldur megi innleiða með stjórnvaldsgerðum, að krafan um stutta úttekt eða yfirlit yfir efni þeirra hefur verið framkvæmdarvaldinu mjög þungbær. Það er eitt og annað sem þarf að skoða en í grunninn tel ég að reglur forsætisnefndar frá 1994 séu ágætar til þess að byggja á.