135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

ÖSE-þingið 2007.

457. mál
[16:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir ársskýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2007 en þar er gerð grein fyrir starfi ÖSE-þingsins á síðasta ári. Þá er að finna í skýrslunni einnig upplýsingar um þátttöku nefndarmanna í kosningaeftirliti, sérstakan kafla um starf hv. þm. Péturs H. Blöndals sem síðan árið 2006 hefur gegnt embætti sérlegs fulltrúa forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, og upplýsingar um þátttöku hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur í málþingi um Mið-Asíu sem haldið var sameiginlega af ÖSE-þinginu og Norðurlandaráði. Mun ég gera grein fyrir helstu þáttum skýrslunnar og að lokum víkja lítillega að samskiptum ÖSE og ÖSE-þingsins.

Fyrst ber þó að nefna að ný ÖSE-deild tók við af þeirri sem fyrir var þann 31. maí síðastliðinn í kjölfar kosninga til Alþingis. Ásamt mér skipa hina nýju Íslandsdeild hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er varaformaður, og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir.

Starfsemi ÖSE-þingsins, sem stofnað var árið 1992, hefur færst mikið í aukana undanfarin ár. Kemur þingið núna reglulega saman þrisvar sinnum á ári til vetrarfundar í upphafi árs, ársfundar að sumri, og til haustfundar.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins var haldinn í Vín að venju. Meginhlutverk vetrarfundarins er vinna innan málefnanefnda þingsins sem er liður í undirbúningi fyrir ársfund þar sem skýrslur og ályktanir nefndanna eru teknar til umræðu og afgreiðslu.

Ársfundurinn árið 2007 var haldinn í Kænugarði. Var það í samræmi við áherslu innan ÖSE-þingsins um að reyna að halda atburði á vegum þingsins í auknum mæli í austurhluta Evrópu og í Mið-Asíu. Þá verður næsti ársfundur ÖSE-þingsins haldinn í Astana í Kasakstan.

Á ársfundinum fór fram umræða um skýrslur og afgreiðsla ályktana sem málefnanefndir þingsins höfðu unnið að það árið. Var almenn sátt um þær allar að einni undanskilinni sem fjallaði um framfylgni við skuldbindingar sem aðild að ÖSE kveður á um, þar sem sérstaklega var fjallað um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Landsdeild Hvíta-Rússlands á ÖSE-þinginu var mótfallin því að gerð væri sérstök úttekt á stöðu mála í einstöku aðildarríki, slíkt væri ekki í anda jafnræðis og fór landsdeildin fram á að kaflinn yrði fellur út úr skýrslu nefndarinnar og þar með ályktuninni. Andmæli landsdeildarinnar voru hins vegar ekki tekin til greina og bent á að ástand mála í Hvíta-Rússlandi væri áhyggjuefni og að ÖSE-þinginu bæri ekki síst skylda til að benda á það sem betur mætti fara hjá einstökum aðildarríkjum. Er þetta dæmi um mikilvægi ÖSE-þingsins sem vettvangs fyrir opinská skoðanaskipti um mál sem snerta stöðu lýðræðis, mannréttinda og öryggis í aðildarlöndum.

Að umfjöllun um Hvíta-Rússland undanskilinni kom samvinna ÖSE-þingsins og lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE um kosningaeftirlit nokkuð til tals en þar á milli hefur ríkt nokkur ágreiningur um verkaskiptingu og hvernig samvinnu stofnana skuli háttað. Engar deilur standa hins vegar um mikilvægi kosningaeftirlits sem hefur verið eitt meginhlutverk bæði ÖSE og ÖSE-þingsins frá árinu 1993 né þátttöku þingmanna við kosningaeftirlit sem talin er vera mjög mikilvæg hvort heldur er á vegum ÖSE eða ÖSE-þingsins.

Í sambandi við mikilvægi kosningaeftirlits vil ég taka fram að bæði hv. þingmenn Pétur H . Blöndal og Valgerður Sverrisdóttir tóku þátt í kosningaeftirliti á vegum ÖSE-þingsins á árinu. Pétur fór til Kasakstan til að taka þátt í eftirliti með þingkosningum 18. ágúst og Valgerður til Rússlands þar sem kosningar til neðri deildar rússneska þingsins, dúmunnar, fóru fram 2. desember.

Herra forseti. Haustfundur ÖSE-þingsins var síðan haldinn í Portoroz í Slóveníu þann 30. september og á sama tíma fór fram árleg málefnaráðstefna ÖSE-þingsins sem að þessu sinni fjallaði um Suðaustur-Asíu. Ég vísa í ársskýrsluna um frekari upplýsingar um þann fund.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem er varaformaður Íslandsdeildarinnar, var skipaður í embætti sérlegs fulltrúa forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE árið 2006, en Pétur hefur um árabil verið hvatamaður þess innan ÖSE-þingsins að það hefði virkara eftirlit með fjármálum ÖSE. Í krafti embættis síns fór Pétur á fjölda funda og skilaði af sér fjórum skýrslum á árinu. Ber þar hæst heimsókn hans til vettvangsskrifstofu ÖSE í Albaníu í sumar þar sem hann kynnti sér starfsemi ÖSE á vettvangi frá fyrstu hendi. Niðurstaða þeirrar vettvangsheimsóknar var að ÖSE væri almennt að vinna mjög gott og faglegt starf. Vísa ég aftur í ársskýrsluna um frekari upplýsingar. En í sambandi við embætti hv. þm. Péturs H. Blöndal hins vegar vil ég bæta því við að í fyrstu má segja að það hafi ekki mætt miklum skilningi af hálfu ÖSE, en starf hans felst í því að auka gagnsæi í störfum ÖSE og eftirlit með þeim fjármunum sem aðildarríkin veita til stofnunarinnar, en líkt og með flestar aðrar alþjóðastofnanir er lýðræðislegt eftirlit með fjárveitingum til ÖSE takmarkað, ef eitthvað, eftir að framlög aðildarríkjanna hafa verið greidd. ÖSE-þingið er að eigin mati eini vettvangurinn fyrir slíkt lýðræðislegt eftirlit en ráðherranefnd ÖSE taldi hins vegar að ÖSE-þingið hefði hvorki stofnanalega né lagalega stöðu til þess að sinna þessu eftirliti, það væri þvert á móti í verkahring hvers þjóðþings fyrir sig að hafa eftirliti með eigin fjárframlögum til stofnunarinnar. Ég held samt að það megi fullyrða að afstaða ÖSE hafi tekið stakkaskiptum þar sem menn gera sér grein fyrir að aðhald ÖSE-þingsins er til þess fallið að auka sýnileika þess mikilvæga starfs sem unnið er á vegum ÖSE og rækta sambandið við þingmenn á ÖSE-svæðinu sem auðvitað starfa á þjóðþingum aðildarlandanna þar sem þeir fara með fjárveitingavald. Áhugi þingmanna á fjármálum ÖSE og þrýstingur þingsins um úrbætur hefur vafalítið einnig átt þátt í því að á undanförnum árum hefur fjárveitingarferli stofnunarinnar verið einfaldað, framsetning fjárlaga þess batnað núna síðast með innleiðingu mælikvarða á árangur verkefna og upplýsingagjöf til ÖSE-þingsins aukist. Bendi ég hv. þingmönnum á að lesa skýrsluna til að kynna sér betur það starf sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur innt af hendi fyrir ÖSE-þingið.

Herra forseti. Undanfarin ár hefur ÖSE-þingið líkt og aðrar alþjóðastofnanir beint sjónum sínum í auknum mæli til Mið-Asíu eins og lesa má um í skýrslunni. Ég vil nota tækifærið og nefna sérstaklega þátttöku hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur sem ásamt hv. þm. Árna Páli Árnasyni, formanni Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sótti málþing um orku- og umhverfismál sem haldið var 9. desember í Ósló með þátttöku þingmanna frá löndum Mið-Asíu og Norðurlöndum. Þar hélt hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir erindi um reynslu Íslands af því að fara frá örbirgð til velmegunar með útgangspunkt í virkjun orkuauðlinda hérlendis. Málþingið var haldið í sameiningu á vegum ÖSE-þingsins og Norðurlandaráðs og er liður í átaki ÖSE-þingsins þess efnis að auka þátttöku þingmanna frá Mið-Asíu í starfi ÖSE-þingsins annars vegar og hins vegar stuðla að auknu svæðisbundnu samstarfi þjóðþinga hinna fimm Mið-Asíulanda að fyrirmynd Norðurlandaráðs.

Herra forseti. ÖSE-þingið er samkunda þar sem 320 þingmenn koma saman frá 56 löndum í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Ég hef ekki áður haft kynni af starfsemi ÖSE-þingsins, en að mínu mati er um mikilvægan vettvang að ræða til að eiga skoðanaskipti, ekki síst fyrir þingmenn sem koma frá löndum sem eru á vegferð í átt til lýðræðis eins og í tilviki Hvíta-Rússlands sem ég vék að hér áðan. Einnig taka ÖSE-þingmenn virkan þátt í kosningaeftirliti og eiga aðkomu að lausn deilna eða svonefndra frosinna átaka á ÖSE-svæðinu.

Í ársskýrslunni er einnig vikið að sambandi ÖSE-þingsins við ÖSE. Ólíkt öðrum alþjóðastofnunum þá byggir ráðherraráð og þingmannasamkunda ÖSE ekki á stofnsáttmála heldur samþykkt sem kennd er við Helsinki sem var landfræðilega staðsett mitt á milli stórveldanna til austurs og vesturs á tímum kalda stríðsins. Ég vil nota tækifærið og aðeins koma inn á þá vinnu sem undanfarið hefur farið fram innan ÖSE og snertir stöðu og hagsmuni ÖSE-þingsins.

Undanfarið hefur verið unnið að stofnskrá fyrir ÖSE. Stofnskrá, ólíkt stofnsáttmála, lýtur að því að skilgreina lagalega stöðu ÖSE sem alþjóðastofnunar og felur meðal annars í sér að skilgreina með skýrum hætti lagalegt umboð ÖSE til að gera lagalega bindandi samninga og réttarstöðu starfsmanna á vettvangi, en eins og er þá er staða þeirra í samanburði við starfsmenn annarra alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna óljós þegar kemur að friðhelgi og öðru því sem lýtur að réttindum og skyldum. Stofnskrá lýtur með öðrum orðum að því að auðvelda stofnuninni að sinna hlutverki sínu í samræmi við það sem kveðið er á um í Helsinki-sáttmálanum frá 1975 og Parísarsáttmálanum frá 1990. Í raun eru þessir tveir sáttmálar ígildi stofnsáttmála þrátt fyrir að vera það ekki formlega í lagalegum skilningi þar sem í þessum tveimur samþykktum er kveðið á um hlutverk og markmið ÖSE og ÖSE-þingsins. Flestir eru því sammála að ekki sé þörf á því að gera stofnsáttmála sem skilgreinir markmið og hlutverk þessara tveggja stofnana. Að sama skapi eru menn sammála um gildi þess að gera stofnskrá fyrir ÖSE.

Í því sambandi vil ég sérstaklega benda á að í þeirri vinnu hafa verið settar fram tillögur sem gera ráð fyrir að ÖSE-þingið sé sjálfstæð stofnun sem framkvæmi hluta af starfsemi ÖSE samkvæmt nánari ákvörðun formanns ráðherranefndar ÖSE. Í ljósi þess að ekki er talin vera þörf á stofnsáttmála hafa fulltrúar ÖSE-þingsins hins vegar óskað eftir því að það sé skilgreint með sama hætti og stofnanir ÖSE, eins og til dæmis lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE, til að tryggja það að ÖSE-þingið geti notið sömu lagalegrar stöðu og ÖSE og stofnanir þess á vettvangi þrátt fyrir að ÖSE og ÖSE-þingið séu í raun tvær aðgreindar stofnanir samkvæmt núverandi stofnanauppbyggingu. Því er hins vegar við að bæta að vinnan við gerð stofnskrár ÖSE stendur í stað eins og er vegna kröfu Rússlands um að unnið sé að stofnsáttmála fyrir ÖSE sem ólíkt stofnskrá hefur það að markmiði að skilgreina markmið og hlutverk ÖSE eins og fyrr segir. Hugmynd Rússa hefur mætt andstöðu vestrænna aðildarlanda ÖSE sem þykir Helsinki-sáttmálinn frá 1975 og Parísar-sáttmálinn frá 1990 þjóna sama tilgangi og stofnsáttmáli eins og fyrr segir. Andstaðan mótast af því að vestræn ríki líta svo á að Rússland sé með þessum hætti að reyna að takmarka núverandi svigrúm ÖSE til starfa á sviði öryggis- og friðarmála, mannréttinda og lýðræðis, einkum á þeim svæðum sem rússneskir ráðamenn hafa hefðbundið talið tilheyra sínu áhrifasvæði, þ.e. austurhluta Evrópu, í Kákasuslýðveldunum og Mið-Asíu, en ríki þar hafa notið samstarfsins við ÖSE í ríkum mæli á síðustu árum og ljóst er að mun meiri pólitísk vigt hefur verið og verður lögð í að aðstoða ríkin í þessum heimshlutum.

Herra forseti. Að lokum vil ég færa hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Valgerði Sverrisdóttur og ritara Íslandsdeildar ÖSE-þingsins, Magneu Marinósdóttur, ánægjulegt og gott samstarf á liðnu ári.