139. löggjafarþing — 76. fundur,  22. feb. 2011.

rannsókn á stöðu heimilanna.

314. mál
[19:04]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er tvíþættur vandi, annars vegar vandi einstaklinga sem þurfa staðfestingu á upplýsingum um sjálfa sig, og þær upplýsingar ætti að vera hægt að fá, ég segi ekki á fimm mínútum en á einum degi, með því að senda kennitölu viðkomandi aðila til allra sem málið gæti varðað, lífeyrissjóða, skattsins o.s.frv. Tölvurnar þeirra gætu svarað nánast sjálfvirkt. Þetta er ekki mikið mál. Svo þarf hins vegar að fá mynd af allri stöðu allra heimila á einn stað þannig að stjórnvöld, hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn, gætu fundið lausn á þeim vanda sem heimilin standa frammi fyrir. Ég hef lýst því þannig að það sé eins og að maður sé að sigla skipi um skerjagarð og það er byrgt fyrir brúna, það má ekki sjá út, og maður á að taka ákvörðun um hvert maður á að stýra, til hægri, vinstri eða stoppa. Menn vita ekkert um þessar upplýsingar en þær eru til á tölvutæku formi um allt kerfið undir kennitölu. Það vill svo til að Íslendingar hafa allir kennitölu og þessum upplýsingum væri hægt að safna saman á einn stað á mjög hraðvirkan hátt. Það er bara einhvern veginn og einhverra hluta vegna ekki skilningur á því.

Ég tel að með svona dulkóðunarferli væri alveg skothelt að fá upplýsingar um stöðu allra heimila, þar með talið um leigjendur. Sumir leigjendur leigja reyndar svart og um þá leigu fær maður að sjálfsögðu ekki upplýsingar en um alla aðra sem búa í félagslegum íbúðum eða fá húsaleigubætur eru til upplýsingar. Þetta er allt til á tölvutæku formi og það væri hægt að safna þessu saman með hraði ef menn hefðu skilning á því og vilja til þess. Það má vel leysa vanda einstaklinganna sem núna þeytast um allan bæ þegar þeir þyrftu mest að vera að vinna vinnuna sína, en þá eru þeir settir í að þeytast um allan bæ til að ná í upplýsingar.