140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[18:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér hefur verið góð umræða um frumvarp um meðferð sakamála þar sem verið er að fjalla um auknar rannsóknarheimildir til lögreglu. Öll viljum við hafa lög og reglur. Við viljum geta treyst því að þegar við förum út úr húsi verðum við ekki lamin í hausinn. Við viljum líka geta treyst því að við getum farið niður í bæ, farið ferða okkar, án þess að eiga eitthvað á hættu.

Víða erlendis er staðan sú, ég hef komið í þannig umhverfi, að menn hafa búið til víggirtar eyjar. Glæpatíðnin er orðin svo há að fólk tekur sig saman og býr til hverfi sem eru víggirt, með eftirlitsmyndavélum, rafmagnsgirðingum o.s.frv. Þannig hafa menn varið sig. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að mér finnst það ekki aðlaðandi umhverfi og ég held að það sé ekki lausnin. Oft og tíðum er það vegna þess að mikil misskipting er í lífskjörum, afar mikil misskipting í lífskjörum. Til eru heilu hóparnir af fólki sem hafa engu að tapa. Það er náttúrlega ekki góð staða.

Við stöndum hér frammi fyrir þeim hagsmunum að leyfa eftirlit, hleranir, jafnvel fangelsanir, sem við getum sjálf lent í, vegna þess að grunur getur að ósekju fallið á hvern sem er. Við stöndum frammi fyrir því að veita auknar heimildir gegn því að geta gengið örugg um göturnar. Þarna rekast hagsmunirnir sem sagt á. Það má segja að með þessu séu það glæpamennirnir sem stjórna heiminum. Ég þarf að taka af mér beltið ef ég fer í flugvél og fara úr skónum, þannig er komið.

Það sem mér finnst verst í þessu er að hópur af fólki lýsir því yfir að það ætlar ekki að fara að lögum. Það er meira að segja talið að það sé inngönguskilyrði inn í hópinn að menn fremji glæp og það er jafnvel talið að hópar hér á landi geti ekki aðlagast erlendum hópum nema þeir sýni fram á sæmilega glæpatíðni. Þetta er náttúrlega alveg svakalegt. Þetta er uppreisn gegn ríkjandi kerfi. Þetta er styrjöld við ríkið sem þessir aðilar lýsa yfir. Við þurfum að bregðast við því ef við ætlum ekki að lenda í ósköpum. Ég held að menn þurfi að átta sig á því hvað er að gerast.

Það er talað um vélhjólagengi en ég vil bara tala um gengi, því að sumt af þessu fólki keyrir ekki einu sinni um á vélhjólum. Þetta eru ákveðnir hópar manna sem hafa ákveðin yfirlýst markmið, ganga í einkennisbúningi o.s.frv. Við fengum fund með lögreglunni fyrir stuttu og þar kom fram að innan þessara hópa ríkir ógnarstjórn, fólk er tekið inn en eftir að það er tekið inn getur það ekki farið út úr hópnum án þess að yfir því vofi gífurlegar refsingar sem menn þora ekki að taka á sig. Þetta byggist á ógnarstjórn eða óttastjórn þarna innan húss hjá þessum samtökum og þau valda ótta úti í þjóðfélaginu. Þetta byggist allt á ótta, allt saman.

Ef einhver skuldar eitthvað kemur bara maður í heimsókn í búningi, með eitthvert merki, og segir: Heyrðu, þú skuldar honum Jóni 500 þúsund, ætlarðu ekki að fara að borga, vinurinn? Svo labba þeir bara út. Það þarf ekki meir. Þannig skapa þeir ótta.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að taka upp þá reglu — á sama hátt og við hv. þingmenn sverjum eið að stjórnarskránni — að menn lýsi yfir hollustu við lögin. Það er ekkert erfitt fyrir mig að gera það, ég get gert það hvenær sem er. En ég hugsa að það gæti orðið erfitt fyrir menn sem eru í þessum samtökum. Ég vil að menn skoði þetta. Sálfræðin gengur út á að brjóta lög. Ef þeir þyrftu að niðurlægja sig í eigin augum og viðurkenna lögin yfir sér — og ef þeir gera það ekki þá bara fara þeir í fangelsi eða eitthvað slíkt. Ég held að það sé að öllu leyti betra ráð en banna þessi samtök, því að þá spretta þau upp annars staðar. Þetta þarf að skoða. Það þarf að skoða hvernig þessi samtök eru uppbyggð.

Auðvitað er þetta líka, herra forseti, skilgreiningarvandi. Það er til dæmis skilgreiningarvandi hver er í uppreisn í arabalöndunum. Hver er í uppreisn og hver er glæpamaður? Í Sýrlandi eru uppreisnarmenn kallaðir glæpamenn. Þannig að það getur verið erfitt að greina á milli hvað er pólitísk uppreisn og hvað er hrein glæpastarfsemi.

Nokkuð hefur verið rætt um kostnað. Það var farið í 50 millj. kr. kostnað. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst hann ekki skipta neitt voðalega miklu máli. Ef spurningin er um það hvort ég geti gengið um götur bæjarins eða þurfi að verja mig með einhverjum hætti er kostnaðurinn margfalt meiri í því að verja sig. Við erum nú mjög mörg komin með öryggiskerfi, þar sem er einkavæðing á öryggisþjónustu, einkavæðing á löggæslu. Það gerum við af því innbrotum hefur fjölgað og ríkisvaldið stendur sig ekki í því að verja eigur okkar.

Ég held því að kostnaðurinn við að auka heimildir eða auka eftirlit lögreglunnar sé í raun mjög lítill þáttur miðað við þann kostnað sem gæti skapast í þjóðfélaginu ef glæpir ná yfirhöndinni.

Ég ætla nú ekki að tefja málið mikið meira, herra forseti, og vil þakka fyrir þessa góðu umræðu. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja frumvarpið fram og vekja þessa umræðu. Ég vonast svo til að hv. nefnd, sem fær málið til skoðunar, ræði það mjög vandlega.