143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[20:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nú ítreka ég það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í þessu efni. Ég tel að arðgreiðslur frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins muni bæta upp það tekjutap sem verður af þessari lækkun. Hugmyndin sem þarna er verið að vísa til er fengin annars staðar frá þar sem ríkið áskilur sér rétt til þess að taka stærsta hlutann af því svigrúmi sem er til smásöluálagningar til sín.

Þá gætum við séð fyrir okkur að pakki af sígarettum sem kostar — ég veit ekki nákvæmlega hvað hann kostar, 1.200 kr. eða 2.000 kr. eða … (ÖS: Veistu hvað neftóbakið kostar?) hvað hann kostar af því að ég hef ekki keypt sígarettupakka.

Það sem við erum í raun og veru að tala um er að í stað þess að það sé þetta mikið svigrúm í smásöluálagningunni í landinu verði það fastsett og svigrúmið sem þá er til staðar, óuppfyllt til þess að viðhalda sama útsöluverði, verði fært til ríkisins. Það eykur tekjur ríkisins af hverjum seldum sígarettupakka ef til þess kæmi. Þetta er fyrirkomulag sem er þekkt annars staðar. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um að gera þetta hér, en þetta er möguleiki sem hægt væri að hrinda í framkvæmd ef vilji væri til staðar.