136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því að nú eru gerðar ákveðnar kröfur um menntun seðlabankastjóra — mér skilst að einn af þessum þremur í dag uppfylli þau skilyrði — og stjórnmálamaður, ráðherra, á að tilnefna hann eftir auglýsingu.

Nú er þekkt að hagfræðingar eru afskaplega pólitískir. Það er bara þannig. Ég held að Karl Marx hafi verið hagfræðingur, líka Friedman og fleiri þannig að hagfræðin er í eðli sínu mjög pólitískt fag öndvert við stærðfræði og heimspeki. Reyndar getur heimspeki líka verið mjög pólitísk en stærðfræði örugglega ekki. Verður þessi ráðning og uppbygging á stjórninni ekki mjög pólitísk? Vegna þess að seðlabankastjóri er með tvo undirmenn sína í stjórninni og þeir dingla nákvæmlega eins og hann vill því hann ræður launum þeirra og kjörum og hvort þeir fá upphefð eða ekki. Hann tilnefnir einnig tvo aðra utan úr bæ. Þannig að eins manns batterí mun stýra þessu. Er þetta mjög sniðugt?

Mikið er talað um ábyrgð og að svona stofnanir séu óháðar. Hvernig er hægt að búa til kerfi sem er þannig að menn sæti ábyrgð þótt þeir séu óháðir? Mér skilst að hv. þingmaður hafi sem hæstv. viðskiptaráðherra sagt upp stjórn óháðrar stofnunar, í einu lagi. Ég veit ekki hvort þeir aðilar hafi samþykkt það persónulega og vitað af því. Þannig að spurningin er hvort stofnanir eigi að vera þannig að framkvæmdarvaldið geti sagt stjórnendum þeirra upp ef þeir hlýða ekki og gera eins og það vill.