140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar á málið er litið í heild sinni er ágæt samstaða að myndast í þessum málum. Hún er að myndast innan þingsins, það er þverpólitísk samstaða um málið, og það var mjög ánægjulegt að koma í allsherjarnefnd þingsins þegar þessi mál voru rædd og heyra tóninn þar.

Hvað varðar tilteknar aðgerðir eða lagabreytingar sem eru til umræðu núna er alveg rétt að misjöfn sjónarmið eru uppi, einnig innan lögreglunnar. Þar er ekkert einhlítt sjónarmið á ferðinni. Ég hef ráðfært mig við ýmsa innan lögreglunnar sem eru á annarri skoðun en þeir sem hafa haft sig mest í frammi í þjóðmálaumræðunni, en auðvitað er það okkar á þinginu að ræða þessi mál og taka afstöðu til þeirra. Þegar vísað er í rýmri heimildir þurfum við náttúrlega að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem menn eiga við með því. Vilja menn fara út á þær brautir sem eru á Norðurlöndunum (Forseti hringir.) til dæmis? Hvað er það nákvæmlega sem menn kalla eftir?