143. löggjafarþing — 76. fundur,  18. mars 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[21:26]
Horfa

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ísland hefur rödd sem yfirleitt hljómar miklu skærar en stærð þjóðarinnar gefur til kynna. Það hefur sýnt sig á umliðnum áratugum og stundum hefur það skipt máli. Lóð okkar er kannski ekki svo þungt en þegar það leggst við hin sem eru lögð á vogarskálarnar skiptir það máli. Þetta er líka mórölsk afstaða. Þetta styrkir okkur sem þjóð, tel ég, að fara að sannfæringu okkar. Tækin sem við höfum þar fyrir utan er hæstv. utanríkisráðherra og handhafar framkvæmdarvaldsins. Í tillögunni er lagt fyrir hann að gera ákveðna hluti, meðal annars að hagræða og breyta því hvernig aðstoð okkar til Úgandabúa er af höndum reidd. Það eru tæki okkar. Þau eru ekki önnur. Það er okkar sem löggjafarsamkundu sem á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald að sjá til þess að ríkisstjórnin geri þetta. Ráðherrar gera það. Þeir eru skíthræddir við þingið eins og hv. þingmaður á að vita.

Það sem skilur kannski á milli mín og hv. þingmanns varðandi aðkomu að blöðum er að ég þekki þau út í hörgul. Ég hef verið ritstjóri þriggja dagblaða og veit þess vegna hversu takmarkað er stundum að marka það sem í þeim stendur. [Hlátur í þingsal.] Það er önnur saga.

Því sem hv. þingmaður spurði um í fyrri spurningu sinni, í hinu fyrra andsvari, náði ég ekki að svara, þ.e. um menn sem hugsanlega ginna ungmenni til einhverra verka með peningum sem þau vilja ekki en fyrir fátæktar sakir þiggja, þau ungmenni eru misnotuð, það er misnotkun. Þá er það bara þannig að slíkir gallagripir eru alls staðar, líka í hópum Íslendinga, hvort sem þeir eru samkynhneigðir eða ekki. Það er enginn munur þar á. Glæpatíðni eða glæpahneigð er ekki meiri hjá þeim sem eru hinsegin en hinum. Það er algjörlega ljóst að menn fæðast samkynhneigðir og eru það. Það er einmitt þess vegna, af því þeir koma svona í heiminn, að með engum hætti á að láta þá gjalda þess.