144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[14:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra talar eins og þingmenn hér í sal þori ekki í efnislega umræðu um málið. Var þetta ekki mál sem var hér í efnislegri 1. umr. í þrjá eða fjóra daga? Það var mjög löng umræða. Ég held að þingmenn treysti sér mjög vel í efnislega umræðu. Hann þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru.

Hv. þm. Birgir Ármannsson segir glaðhlakkalega að það sé bara meiri hlutinn sem ráði og þar af leiðandi þurfi ekki að beita sæmilega siðuðum aðferðum í störfum þingnefnda þar sem góð venja er að formaður í samráði við aðra nefndarmenn setji dagskrá og afgreiði út mál en ekki í einhverju offorsi. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur áhyggjur af því að þetta hjartans mál hans komist ekki á dagskrá hefur hann vald til að kalla málið út úr nefnd ef meiri hluti nefndarinnar vill ekki afgreiða það út. Það er sú aðferð sem sjálfstæðismenn eiga að beita en ekki klækjum eins og gert var hér.