148. löggjafarþing — 76. fundur,  11. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þetta mál sem við höfum verið að fjalla um í utanríkismálanefnd; það hefði kannski verið allt í lagi að fjalla aðeins lengur og nánar um það og taka á fleiri álitamálum en gert var. En það er þó þannig að þær viðbætur og þær breytingar sem gerðar hafa verið frá frumvarpinu eru allar til bóta, svo að ég taki það nú strax fram.

Mér finnst hins vegar að sumu leyti ekki nógu langt gengið varðandi þær breytingar sem hefði þurft að gera og í raun ekki tekið á að minnsta kosti einum mjög mikilvægum þætti þegar kemur að útflutningsaðstoð og markaðssókn Íslands og kem ég örlítið að því hér á eftir. Það hefur verið bent á það mjög lengi, m.a. af Ríkisendurskoðun 2009, að fjármunir sem eru settir í útflutningsaðstoð eða markaðssókn eru dreifðir of víða um kerfið. Eitt af því sem kom fram í skýrslu starfshópsins, sem hér var minnst á í dag, sem skipaður var 2013 og skilaði af sér skýrslu 2015, er einmitt um fjárveitingarnar. Ég hefði viljað sjá að við gerð þessa frumvarps og við lok þess hér á Alþingi hefði verið tekið meira á þessu, þ.e. að við hefðum einfaldlega farið í að kortleggja betur fjármunina sem settir eru í útflutningsaðstoðina, markaðssóknina, og koma þeim öllum á einn stað. Það er óeðlilegt að mínu viti, og ekki vænlegt til sóknar, að vera með kraftana svona dreifða. Það kemur fram á fleiri en einum stað í skýrslunni Áfram Ísland sem minnst var á í upphafi.

Í áliti minni hlutans er farið aðeins yfir þetta mál en byrjað á að fara yfir þá furðulegu vinnu sem er sett af stað, þ.e. fyrst er farið í að búa til lagaumgjörð um Íslandsstofu, breyta eðli stofnunarinnar, sem nota bene er mjög mikilvægt að skilgreina. Það er búinn til samstarfsvettvangur ríkis og einkaaðila án þess í raun að lagaumgjörð sé klár. Hins vegar kemur svo fram í frumvarpinu, og í raun samþykkjum við það í sjálfu sér, utanríkismálanefnd, að skrifa þurfi lagaumgjörð utan um þetta félagaform. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki sé verið að byrja á vitlausum enda. Ég byrja mitt minnihlutaálit á að velta því fyrir mér. Það hefði verið skynsamlegra að byrja á því að búa til lagaumgjörðina og fara síðan í að máta stofnunina inn í lagaumgjörðina.

Íslandsstofa er gerð að sjálfseignarstofnun sem er fyrirkomulag sem er að mörgu leyti ágætt og líklega það form sem er einna skást í dag þegar við horfum á hvaða möguleikar eru í boði. Það er þó þannig að í mjög veigamiklum atriðum er ríkið enn með undirtökin og yfirtökin á verkefninu Íslandsstofa. Fjölda stjórnarmanna var breytt úr fimm í sjö til þess að fá meiri breidd í stjórnina og tryggja aðkomu ákveðinna aðila. Þó svo að atvinnulífið hafi verið með meiri hluta í stjórninni er ríkisvaldið áfram með meiri hluta í útflutnings- og markaðsráðinu. Það held ég að séu mistök. Ég hefði viljað sjá að markaðsráðið væri með meiri hluta frá atvinnulífinu líka vegna þess að þetta er verkefni sem ég held að sé best fyrir komið hjá atvinnulífinu. Þess vegna slær það mig svolítið, mér finnst það svolítið undarlegt, að sjá að hæstv. utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ekki leggja fram frumvarp sem miðar að því að styrkja þátt atvinnulífsins og í raun einkaréttarlegu aðilanna í þessu máli. Ríkið á að sjálfsögðu að vera með, gera þjónustusamning við atvinnulífið eða þá sem nýta þjónustuna eða halda henni á lofti og sjá til þess að þar fúnkeri allt saman, lög og reglur séu eðlilegar, peningarnir komi og að viðskiptafulltrúar sendiskrifstofanna okkar, sem eru víða um heim, frábært fólk, séu til taks og samningur sé á milli hvernig eigi að nota þá þekkingu sem þar er.

Það kemur svolítið á óvart að Sjálfstæðisflokkur sé í raun að styrkja þátt ríkisins í Íslandsstofu með því hvernig málinu er lokið hér. Það gera þeir líka með því að taka ekki á þessum fjárveitingamáli sem ég nefndi fyrr í kvöld.

Ég nefni hér og birti töflur í nefndarálitinu til að undirstrika hvað þetta er ógreinilegt, hvaðan fjármunir koma og líka í hvað þeir fara. Við fengum ekki heildstæða mynd af því í nefndinni hvaðan peningarnir koma og í hvað þeir fara. Auðvitað er hægt að nálgast það allt saman en við hefðum þurft að fá þessar upplýsingar inn í nefndina til að geta áttað okkur betur á þessu.

En ég áttaði mig á því, þegar ég setti þessa vinnu af stað sem ráðherra 2013, að um er að ræða einn af lykilþáttunum sem ná þyrfti utan um, þ.e. hvernig við nýtum peningana best. Það kemur klárlega í ljós hjá þeim sem hafa farið yfir málið, sökkt sér ofan í það, að það er einn af grundvallarveikleikunum í þessu hjá okkur, þeir mörgu aðilar sem eru með fjármunina og það að við erum að senda misvísandi skilaboð út í heim. Við erum ekki að selja Ísland einni röddu, ef þannig má orða það. Það er verið að selja harðfisk, fisk, lambakjöt kannski, skyr og allt mögulegt, og Ísland fyrir ferðamenn, en erum við að tala einni röddu? Við gerðum ákveðna tilraun með verkefninu Inspired by Iceland sem tókst afar vel, vel heppnað átak. En við vitum líka að það eru ekkert endilega allir sem voru þátttakendur í því eins og gengur. Það var líka ekki tekin sú ákvörðun að Inspired by Iceland, svo að ég taki eitt dæmi, yrði notað yfir það að selja vatn, selja skyr, fisk, hross og guð má vita hvað. Það er enn þá verið að senda misvísandi skilaboð. Við erum bara svo lítil land með litla fjármuni í að markaðssetja okkur að þetta allt verður að vanda mun betur.

Auðvitað getur vel verið þegar fram líða stundir, og við endurskoðun sem er boðuð á lögum um Íslandsstofu og verkefninu, að við hverfum frá því að vera áfram að gutla — ætla ég að leyfa mér að segja, virðulegi forseti — með þessa peninga á of mörgum stöðum og horfa ekki á það hvernig við getum náð sem mestu út úr þessum peningum; vonandi komumst við að því síðar að við getum lagað það.

Það er örlítið kapp lagt á að klára þetta mál í dag, aðeins verið að flýta sér; að óþörfu, held ég. Auðvitað hef ég ákveðinn skilning á því að breyta þurfi stofnuninni. Til þess var vinna sett af stað 2013, til að við færum í ferli til að breyta þessu. En mér finnst við vera að stíga hænuskref. Sumir geta sagt að það sé betra að stíga lítið skref og gott en stórt skref og vita ekki út í hvað maður er að fara. En mér finnst lykilþættir verða hér eftir, virðulegi forseti.

Ég ítreka hér undir lokin það sem ég sagði áðan að ég sakna þess svolítið að ekki sé tekið á þessum gríðarlega mikilvæga þætti sem eru fjármunirnir, á því hvernig við nálgumst verkefnið út frá öllum aðilum með því að setja þá á einn stað. Það er ekki verið að gera það með því að búa til þetta markaðsráð. Svo ítreka ég að ég hefði viljað sjá að atvinnulífið fengi meiri ábyrgð á því að sinna þessu verkefni því að þar er þekkingin, þar eru aðilarnir sem eru að reyna að selja fisk eða skyr eða hvað sem er út um allan heim. Þeir eru ekki í utanríkisráðuneytinu eða í ráðuneyti ferðamála eða annars staðar, þeir eru úti á akrinum. Við eigum hins vegar í ráðuneytunum, í utanríkisráðuneytinu, í ráðuneyti ferðamála og öllum öðrum ráðuneytum, að vera reiðubúin að aðstoða þessa aðila, búa til umgjörð sem passar þeim. Því þarna er fólkið sem veit hvað það syngur þegar að þessu kemur.

Virðulegi forseti. Ég er ekki á móti frumvarpinu. Ég mun að sjálfsögðu styðja það en hefði vonast til að við hefðum getað gert þetta örlítið betur. Það hefðum við getað gert ef við hefðum haft aðeins meiri tíma og ráðherrann örlítið meiri metnað fyrir hag atvinnulífsins.