151. löggjafarþing — 76. fundur,  12. apr. 2021.

ávana- og fíkniefni.

714. mál
[19:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með umræðu um þetta mál í þingsal hér í dag. Í grunninn má segja að þetta þingmál sé hreinræktaður popúlismi, alveg hreinræktaður. Hver hv. þingmaðurinn á fætur öðrum hefur komið hingað upp til að lýsa því hvað hann sé svalur og vel með á nótunum. Við megum náttúrlega þakka fyrir það, Miðflokkspúrarnir, að handhafar sannleikans, Píratar, skuli hafa komið hér í löngum bunum til þess að segja hvað þeir viti mikið um þessi mál og að við séum alveg úti á túni varðandi þetta.

Það stóð upp úr einum hv. þingmanni hér áðan, sem gerir þá kröfu að vera handhafi sannleikans, haldinn ákveðinni Messíasarduld, að hann hefði nú verið einhvers staðar þar sem fíkniefna hefði verið neytt og séð margar tegundir og ég veit ekki hvað, og það væri ekkert mál að ná í fíkniefni í Reykjavík. Auðvitað er ekkert mál að ná í fíkniefni í Reykjavík. Sá sem hér stendur er faðir tveggja drengja sem eru nú að komast á miðjan aldur og það var ekkert mál þegar þeir voru unglingar að ná í fíkniefni í Reykjavík, það var auðveldara en að verða sér úti um áfenga drykki. Það hefur ekkert breyst í sjálfu sér. Þetta mál minnir mig pínulítið á það þegar heildsala áfengis var gefin frjáls. Þá var hún allt í einu undanþegin einkasöluleyfinu en smásalan áfram í því. Þetta er aftur á móti öfugt. Nú er heildsala fíkniefna ekki leyfð en um leið og komið er niður í smásölueiningar sem duga handa einum er hætt að refsa fyrir það.

Talandi um refsingar, herra forseti. Ég hef sagt það áður, þegar svipuð mál hafa dottið inn um lúguna, að refsingin sem nú hefur verið fyrir nokkuð þokkalegan neysluskammt af kannabis, svo dæmi sé tekið, er á við þá upphæð sem menn eru sektaðir um fyrir að vera á 110 km hraða hér uppi á Kjalarnesi. Það hefur komið fram hjá allmörgum hér í dag, m.a. okkur Miðflokksmönnum sem höfum tekið til máls, að við erum fús til að draga þannig úr refsingum fyrir þessi brot að þau hangi ekki yfir ungu fólki langt fram á ævina. Við erum þess vegna algerlega með því að fyrsta brot rati ekki inn á sakaskrá og að þau brot sem rata inn á sakaskrá verði afmáanleg eftir einhvern tíma. Þetta hefur komið fram.

Það hefur líka verið talað um það og réttilega að neysluskammtar séu ekki afmarkaðir í frumvarpinu. Beinist þá hugurinn, herra forseti, að einni frægustu fíkniefnahandtöku seinni tíma. Það er þegar Paul McCartney var tekinn í Japan fyrir að flytja þangað inn marijúana árið 1980. Bítillinn var þá, ásamt konu sinni og hljómsveit, að hefja hljómsveitarferðalag um Japan og var með rétt hálft pund af marijúana með sér í farangrinum, þ.e. 220–230 gr. Hann sagði sannleikanum samkvæmt: Þetta er neysluskammtur fyrir mig og frúna, en þau ætluðu að vera í Japan í viku eða hvað það nú var. En það fór illa fyrir karlanganum af því að honum var hent í fangelsi í níu daga og þetta hálfa pund af maríjúana var gert upptækt.

Ég verð reyndar að taka undir með félaga mínum, hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni, sem er líklega sá þingmaður á þessu þingi sem hefur mesta reynslu af löggæslu. Hann hefur varað við því að heimild lögreglu til að gera skammta upptæka sé aflögð eða í besta falli gerð óskýr, og mér þykja það slæm tíðindi. Mér finnst einhvern veginn að með frumvarpinu sé verið að opna rifu sem enginn veit hvað verður stór og ekki eru neinar ráðstafanir gerðar til að bregðast við því sem gæti heitið, í lélegri þýðingu, versta sviðsmyndin. Það virðast ekki vera gerðar neinar tilraunir til þess í frumvarpinu að ganga út frá því að hér geti farið verr en stefnt er að. Við vitum nefnilega að það er nákvæmlega eins með þessi efni og með önnur vímuefni að aukið framboð veldur meiri neyslu.

Mér finnst satt að segja til háðungar fyrir hv. þingmenn Pírata að gera lítið úr því þegar maður eins og hv. þm. Sigurður Páll Jónsson stígur á stokk og segir frá reynslu sinni af fíkn — Sigurður Páll hefur unnið með SÁÁ í áratugi og þekkir afleiðingar fíknar mjög vel — að menn skuli koma hér og nánast henda gaman að því þegar hann er að færa þetta fram í einlægni. Það þykir mér ekki bjóðandi málflutningur, herra forseti, ég verð að segja það. En nóg um það.

Tækifæri gefst hér við 2. umr., og þá verður vonandi búið að sníða mestu vankantana af þessu máli, til að fara í gegnum málið gaumgæfilega lið fyrir lið og fara vel yfir mál sem er, eins og ég segi, í grunninn popúlískt, sem er í grunninn vont, sem er í grunninn illa unnið, illa ígrundað og illa undirbúið. Það verður okkur ekki til gæfu eða sóma hér á þessu þingi ef þetta mál fer óbreytt, og ég tala nú ekki um hratt, í gegnum þingið. Þess vegna trúi ég því og vil trúa því, herra forseti, að hv. velferðarnefnd og þeir sem koma fyrir nefndina út af þessu máli geti kannski sveigt málið á betri leið en það er á núna eins og það er útbúið. Ég ítreka að við þingmenn Miðflokksins erum ekki gikkglaðir refsivendir en við reynum að beita skynsemi og við reynum að læra af reynslunni.

Hér voru menn að tala um það hvað þeir hefðu mikla reynslu af fíkniefnum og þá er það þannig að sá ágæti maður sem hér stendur hafði það að starfi í ellefu ár að standa við hlið lögreglu og tollgæslu á landamærum. Fíkniefnamál eru mér því ágætlega kunn og afleiðingar þeirra ekki síður. Þetta frumvarp hefur yfir sé kæruleysislegt yfirbragð. Þetta er svona „þetta reddast“-mál, en því miður hef ég ekki trú á því að þetta reddist. Ég hef trú á því að þetta geti orðið ógæfulegt og þess vegna þarf að breyta frumvarpinu til batnaðar þannig að hægt sé að koma því í gegnum þingið hvernig svo sem það verður afgreitt af okkar hálfu í Miðflokknum.