131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:20]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu um verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af riðuveiki í sauðfé. Tillögugreinin er eftirfarandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi verndaráætlun um að varðveita svæði sem eru ósýkt eru af sauðfjárriðu svo að þar megi ala líflömb fyrir svæði sem hafa sýkst.

Reglur verndaráætlunarinnar geri bændum kleift að selja á markaði sauðfjárafurðir sem vottað er að séu frá slíkum verndarsvæðum. Sérstaklega verði kannað hvernig tryggja megi að slátrun fari fram innan verndarsvæðanna hvers og eins eða sameiginlega. Við gerð verndaráætlunarinnar skal endurmeta allar sauðfjárveikivarnareglur sem í gildi hafa verið.“

Riðuveiki í sauðfé er illvígur sjúkdómur sem hefur um langan tíma herjað víða um landið. Nokkur svæði eru þó ósýkt og hafa verið uppspretta líflamba fyrir önnur svæði. Sérstakt áhyggjuefni er nú að í þeirri miklu fækkun sláturhúsa sem yfir hefur gengið hefur það ástand myndast að sauðfé er flutt landshorna milli til slátrunar. Þótt ekki hafi verið flutt fé af riðuveikisvæðum inn á ósýkt svæði til slátrunar hafa sömu flutningatækin farið um sýkt og ósýkt svæði. Sjúkdómurinn er svo illvígur að þessi aðferð getur ekki talist örugg. Því þarf að tryggja að slátrun á þessum svæðum fari fram innan þeirra en huga mætti þó að þeim möguleika að fé yrði flutt milli ósýktra svæða til slátrunar ef sú aðferð stæðist þær öryggiskröfur sem settar yrðu.

Eðlilegt markmið stjórnvalda ætti að vera að tryggja með öllum tiltækum ráðum að ósýkt svæði verði varðveitt til framtíðar, a.m.k. þar til tekst að ráða niðurlögum veikinnar í öðrum landshlutum. Sérstök vernd svæðanna felur líka í sér möguleika til að markaðssetja sauðfjárafurðir frá þeim sérstaklega og vitað er að fyrirspurnir um hvort slíkt hafi verið í boði hafa komið erlendis frá. Sérstök verndaráætlun fyrir slík svæði gæti því aukið möguleika bænda til að selja vöru sína bæði hér og erlendis með sérstakri gæðavottun hvað þessa veiki varðar.

Margvíslegar ráðstafanir hafa verið gerðar hér á landi til að hefta útbreiðslu sjúkdóma í sauðfé með ágætum árangri en þó hefur riðuveikin stungið sér niður víða um land og komið upp aftur á bæjum þar sem fé hefur verið skorið niður jafnvel mörgum árum síðar. Margvísleg samskipti, jafnvel ferðalög á hestum og flutningur af ýmsu tagi getur hugsanlega valdið því að veikin berist milli landshluta. Talið er t.d. að riða hafi borist milli landshluta með fóðri. Þess vegna er að mörgu að huga ef fyrirbyggja á að veikin geti borist milli svæða. Ástæða er til að gera ráð fyrir langri baráttu við þennan sjúkdóm í landinu. Ósýktu svæðin ætti að vera auðveldara að verja ef þeirra verður sérstaklega gætt en ómælanlegur skaði yrði ef sjúkdómurinn kæmi upp á þeim og þess vegna er full ástæða til að huga alveg sérstaklega að vernd þeirra og góð rök fyrir að kosta þar nokkru til

Frumkvæði og stuðningur hins opinbera við verndaráætlun eins og hér er lagt til að verði til stofnað er að mati flutningsmanns þessarar ályktunar fyllilega réttlætanlegur. Það er hlutverk hins opinbera að verja með tiltækum ráðum auðlindir landsins. Íslenski fjárstofninn er ein þessara auðlinda. Tillagan er flutt í þeim tilgangi að verja hann fyrir þeim sjúkdómi sem erfiðast hefur verið að ná tökum á.

Öðru hverju berast fréttir af því að riðuveikismit hafi komið upp og skemmst er að minnast þess að upp kom riðuveiki á Suðurlandi fyrir ekki löngu síðan, bæði í fyrra og hittiðfyrra. Á undanförnum árum hafa verið að stinga sér niður tilfelli af þessu tagi. Sem dæmi um það hve erfitt er við þennan sjúkdóm að eiga er talið nokkuð öruggt að telja megi að riða hafi komið upp a.m.k. eftir 18 ár og jafnvel eftir 20 ár. Reglugerðin sem er í gildi núna gerir ráð fyrir að svæði sem hafa haft riðu séu orðin frí af henni eftir 20 ár en þó eru til dæmi um að riða hafi komið upp eftir svona langan tíma. Eitthvað í frágangi virðist því hafa orðið til þess að smitefnið hefur getað leynst og lifað af í jarðvegi eða með öðrum hætti á þessum stöðum þar sem riðan hefur komið upp.

Þetta minnir vissulega svolítið á annan sjúkdóm, miltisbrandinn, sem virðist geta lifað enn þá lengur og komið upp. Riðuveikismit eru sem betur fer ekki talin hafa komið upp eftir lengri tíma en þennan. Mörg svæði á landinu eru núna að ná þessum tíma á næstu árum, 20 árum eða svo, og við getum alveg bundið vonir við það að við getum séð fleiri og fleiri svæði verða talin frí af riðuveiki. En það er full ástæða til að vekja þetta mál upp á hv. Alþingi bæði vegna þess sem ég sagði áðan og að ákveðin tækifæri eru líka fólgin í málinu.

Norðmenn óskuðu eftir því fyrir nokkrum árum að fá kjöt frá Íslandi sem væri vottað að væri frá svæði þar sem ekki væri riðuveiki. Ekki var hægt að verða við því þá. Það eru kannski möguleikar að verða við því núna vegna þess að menn geta passað upp á upprunann. En einnig hafa verið að gerast hlutir sem ég ætla að nefna og það er að flutningarnir sem núna eru stundaðir á búfé til slátrunar hafa myndað nýja hættu. Menn hafa verið að flytja fé á flutningatækjum sem hafa farið um svæði þar sem riða hefur verið til staðar fyrir ekki mjög löngu síðan og sömu tækin eru svo notuð til að sækja fé inn á svæði þar sem aldrei hefur fundist riða, t.d. vestur á firði, til að flytja þaðan til slátrunar á öðrum stöðum landsins. Ég tel að þarna séu menn að hætta allt of miklu. Það ætti auðvitað að vernda þessi svæði sem eru uppspretta líflambanna. Þau eru fleiri en þarna. Þau eru á norðausturhorninu líka og á Snæfellsnesi þar sem ekki hefur komið upp riða og þar sem menn sækja líflömb þegar þeir þurfa á því að halda, t.d. til að endurnýja bústofn sinn. Ég held að verndaráætlun fyrir þessi svæði sé nauðsynleg sem mundi þá kannski fela í sér að inn í hana yrðu tekin svæði jafnóðum og þau hafa verið riðufrí nógu lengi til þess, hvort það eru þessi 20 ár sem reglugerðin gerir ráð fyrir núna eða einhver annar árafjöldi, það ætla ég ekki að dæma um.

En fyrst og fremst er ég að flytja þessa tillögu til að vekja athygli á málinu vegna þess að það er alveg ljóst að sumt af þeim slysum sem hafa orðið síðustu árin eru vegna þess að menn eru ekki nógu vel vakandi. Það á við um almenning, það á við um fólk sem fer ríðandi um landið sem hefur tekið með sér fóður jafnvel af svæðum þar sem riðuveiki hefur verið til staðar, jafnvel af riðuveikibæjum, flutt með sér til að gefa hestum. Og dæmi eru um að gripir hafi verið fluttir milli landsvæða sem hafa verið geymdir í fjárhúsum á riðuveikibæ og fluttir að öllum líkindum með sitt riðusmit í annan landshluta. Þetta eru hlutir sem benda til þess, og eðlilega. Það er eðlilegt að menn séu kannski ekki alveg vakandi yfir sjúkdómi sem er svona óskaplega illvígur og tekur svo langan tíma að uppræta. Þess vegna þurfa menn að vera sífellt á verði til að hægt sé að vinna bug á sjúkdómnum.

Ég ætla í lok ræðu minnar að vitna í lokaorð greinar sem Sigurður Sigurðarson, dýralæknir sauðfjársjúkdóma, birti á vef yfirdýralæknisembættisins 20. júlí 2004 þar sem hann svarar spurningunni: Er hægt að útrýma riðuveiki?

Hann segir, með leyfi forseta:

„Já, það er hægt. Það vantar herslumuninn. Augljóst virðist af þeim árangri sem hefur náðst, að unnt sé að uppræta riðuveiki, ef enginn bregst og allir fara eftir settum reglum. Til þess þarf hugarfarsbreytingu og skipulagt samstarf þeirra sem málið snertir. Þessi grein er ætluð til þess að fleiri þekki einkenni veikinnar.“ — Hann lýsir einkennum hennar í fyrri hluta greinarinnar. — „Veikin er lengi að búa um sig áður en hún kemur fram. Tafir geta orðið á greiningu hennar, menn átta sig ekki á breytilegum einkennum og kveikja ekki á peru, þar sem engin von er á veikinni. Á meðan getur hún breiðst út. Menn ættu að huga að smitleiðum, hugsa ekki of skammt. Menn ættu alls staðar að hætta að versla með fullorðið fé. Það stuðlar að flakki og smitdreifingu. Verslun með fé til kynbóta (hrúta) ætti aðeins að fara fram með vitund og skriflegu samþykki héraðsdýralæknis á svæðum, sem eru laus við alvarlega smitsjúkdóma. Greitt er fyrir sæðingum til að létta á verslunarþörf. Menn ættu að hætta að hýsa afbæjarfé, hætta að fá hrúta að láni, hætta að nota ósótthreinsuð tæki og tól frá öðrum. Fullorðnar kindur sem skera sig úr þyrftu allar að komast í hendur dýralækna til rannsókna eigendum að kostnaðarlausu, helst gegn greiðslu til eigenda. Ljóst virðist að riða kraumar undir hér og hvar enn þá og er jafnvel að tæra upp kindur á stöku stað án þess að menn átti sig á því. Baráttan gegn riðuveiki er sameiginlegt hagsmunamál okkar, sem snertir álit landsins út á við. Hér þarf hver að gæta bróður síns og afstýra ógætni og lögleysu. Ný aðferð til leitar og greiningar á riðuveiki áður en hún sést er nú fundin. Hana þurfum við að taka upp þótt dýr sé. Það er lykillinn að lokaátakinu.“

Þetta segir Sigurður Sigurðarson í grein sinni. Ég vil bæta því við og hafa það lokaorð mín að ég tel fulla ástæðu til að menn fari yfir þessi mál, skoði þau upp á nýtt og allar þær reglur sem eru í gildi og að menn skoði möguleikana á því að setja upp verndarsvæði, eins og ég legg til. Í því eru líka fólgin tækifæri sem ég held að íslenskir bændur gætu nýtt sér.