139. löggjafarþing — 77. fundur,  23. feb. 2011.

þjóðaratkvæðagreiðslur -- lánshæfismat ríkisins -- bætt stjórnsýsla o.fl.

[14:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mig langar til að fylgja eftir einu atriði sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi í síðari ræðu sinni, eða hugsanlega þeirri fyrri, ég man það ekki, en hv. þingmaður nefndi það að minnsta kosti og full ástæða er til að taka undir að sú skýrsla sem okkur skilst að stjórnlaganefnd hafi lokið við, þrjú hundruð og eitthvað blaðsíður, eftir því sem sagt er, verði gerð opinber þannig að almenningur í landinu geti kynnt sér þau plögg og tekið afstöðu eftir atvikum til þeirra tillagna sem þar kunna að koma fram. Að minnsta kosti held ég að við hljótum öll að vera sammála um að stjórnarskráin sé málefni sem allur almenningur í landinu eigi að geta kynnt sér, fjallað um og rætt mismunandi hugmyndir um. Ég held að það sé engum vafa undirorpið að skýrsla stjórnlaganefndar sem unnið hefur í nokkra mánuði að þessu verki hljóti að vera innlegg í þá umræðu. Menn kunna að hafa mismunandi skoðanir á einstökum atriðum sem þar koma fram en það getur ekki verið nema umræðunni og málefninu til framdráttar að þessi skýrsla verði gerð opinber, ef rétt er sem fram hefur komið að hún sé tilbúin eða svo gott sem. Ég held að það sé rétt að hæstv. forseti þingsins beiti sér fyrir því að þetta verði gert, að minnsta kosti fer ég þess á leit við forseta þingsins að hæstv. forseti upplýsi okkur í þinginu um það hvort og þá hvaða samskipti hafa átt sér stað milli forseta, forsætisnefndar og eftir atvikum stjórnlaganefndar í þessum málum.