141. löggjafarþing — 77. fundur,  11. feb. 2013.

hagvöxtur.

[15:24]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er því miður veruleikinn að hagvaxtarhorfur hér og ekki síður þó í löndunum í kringum okkur hafa verið að daprast. Á síðari hluta síðasta árs dró úr þeim afar þróttlitla hagvexti ef einhver var áætlaður, t.d. sem spáð var framan af í löndum eins og Bretlandi, Danmörku og víðar á meginlandi Evrópu, og almennt endaði árið í samdrætti í flestum evrópskum hagkerfum. Þess fór að gæta á síðari hluta síðasta árs að þessi þróun væri að berast hingað í gegnum heldur daprari viðskiptakjör og þar af leiðandi endurmeta menn núna hagvaxtarhorfur hér niður á við, því miður, kannski um 0,5 prósentustig af vergri landsframleiðslu, úr 2,5% í 2%.

Þess þá heldur eru mikilvægar þær fjárfestingar sem nú eru að fara af stað, m.a. á grundvelli fjárfestingaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Þar má nefna stórar samgönguframkvæmdir eins og Vaðlaheiðargöng, ný Norðfjarðargöng sem gögn voru afhent verktökum um á dögunum, útboð á framkvæmdum yfir Hellisheiði, stofnanir við Háskóla Íslands, eins og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Árna Magnússonar og Kirkjubæjarstofu á Klaustri. Úthlutað verður á þessu ári yfir 500 millj. kr. til uppbyggingar á ferðamannastöðum, yfir 250 millj. kr. til uppbyggingar í þjóðgörðum og á friðlýstum svæðum o.s.frv.

Það er alveg ljóst að þetta hjálpar til þó að vissulega dugi það ekki ef ytra umhverfi er okkur mótdrægt. Ég geri ekki lítið úr þeim vanda.

Hvað á að gera til að bregðast við þessu, breyta efnahagsástandinu í heimsbúskapnum eins og ég þykist vita að hv. þingmaður vilji? Það er hægara sagt en gert. Þó er það þannig að ég tel að við þessar ástæður sé rétt, og það erum við þegar byrjuð að gera, að fara til dæmis í samstarf við íslenska útflytjendur um það hvort nauðsynlegt er að ráðast í markaðsaðgerðir eins og þegar hefur verið ákveðið með saltfiskafurðir til að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem ella er ástæða til að óttast að smiti inn í okkar þjóðarbúskap (Forseti hringir.) í gegnum versnandi viðskiptakjör og sölutregðu á útflutningsmörkuðum.