145. löggjafarþing — 77. fundur,  17. feb. 2016.

þörf á fjárfestingum í innviðum.

[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið undarlegt að hlusta á innlegg sumra hér sem vilja lýsa því hvernig gert hafi verið stórkostlegt fjárfestingarátak í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar staðreyndin er sú að það var dregið svo mjög úr opinberri fjárfestingu að við fórum úr um það bil 2,4% af landsframleiðslu niður fyrir 1%. (Gripið fram í.) Svo standa menn hér og segja: Það er átakið sem menn njóta enn góðs af.

Þetta er ekki svona. Það var skorið stórkostlega niður í opinberri fjárfestingu og við erum að komast upp úr þeim öldudal aftur. Það var ákveðin forgangsröðun sem birtist í þessu og menn verða að kannast við það. Ég hef svo sem ekkert verið að eyða tíma mínum í það tímabil sérstaklega. Ég vek bara athygli á að við erum að koma úr mjög lágri opinberri fjárfestingu.

Megintímann notaði ég áðan í að lýsa því að það þyrfti að gæta að því að það væri svigrúm í hagkerfinu fyrir mjög aukna opinbera fjárfestingu, t.d. upp á upp undir 15–20 milljarða á ári. Eins og sakir standa, með vextina þar sem þeir eru, með ábendingar ýmissa aðila um að hér sé slaki horfinn úr hagkerfinu og þensluskeið tekið við, þurfa menn aðeins að gæta að sér í þessu. Ég ætla þó að segja að til eru mjög mikilvægar opinberar fjárfestingar sem eru ekki mjög þensluhvetjandi. Segjum til dæmis ef við keyptum þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna eða fjárfestum í skipi fyrir nýja Vestmannaeyjaferju, það er ekki mjög þensluhvetjandi opinber fjárfesting. Þvert á móti getur hún bæði verið þjóðhagslega hagkvæm og haft nánast engin áhrif til aukinnar þenslu innan lands. Það er kannski við þær aðstæður sem eru uppi núna sem við ættum að horfa til slíkra verkefna um leið og við röðum inn í svigrúmið sem er að myndast og ég nefndi áðan, 5–15 milljarðar eru að losna á allra næstu árum, til að fara í ný verkefni. Þar þurfum við að raða inn stórum fjárfestingum eins og (Forseti hringir.) sjúkrahúsum og mjög miklu átaki í vegamálum.