148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

afgreiðsla máls frá Miðflokknum.

[16:05]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil taka heils hugar undir ræðu síðasta þingmanns sem kom hingað upp, það er nákvæmlega þetta. Forseti hefur gert grein fyrir því að honum hafi ekki borist þau skilaboð frá þingflokkunum að það hafi verið uppi ágreiningur fyrr en fimm mínútum fyrir þennan þingfund sem var settur með dagskrá og átti að fara í atkvæðagreiðslu á. Það er því skiljanlegt að forseti, sem hefur tvisvar sinnum gefið tækifæri og svigrúm fyrir þingflokkana til að koma sér saman um hvernig eigi að lenda þessu og því verið hafnað, geti ekki annað gert en stýra þeim fundi sem var boðaður. Það skil ég mjög vel.

Boltinn er núna hjá þingflokksformönnum og formönnum flokkanna, þeir þurfa að setjast niður og finna lendingu í málinu. Þetta verður mjög skiljanlega álitaefni þegar menn semja um að mál skuli afgreitt, sama hvort menn fela sig síðan á bak við þau orð eða ekki, sem gæti alveg verið því að mjög algengt er að menn séu með orðhengilshátt til þess að geta svindlað, þannig að talað er um að afgreiða eigið málið á einhvern ákveðinn hátt.

Það er alla vega alveg ljóst hvað Miðflokkurinn vill í þessu máli. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að hann vilji fá atkvæðagreiðslu með eða á móti því. Það er það sem þeir (Forseti hringir.) telja sig réttilega hafa verið að kaupa í þinglokasamningnum, sem er mjög skiljanlegt. Hinum megin við borðið vilja menn það ekki og telja að afgreiðsla málsins hafi þýtt að afgreiða ætti það einhvern veginn. Það er alveg rétt, ef við erum með orðhengilshátt, að afgreiðsla málsins getur líka þýtt að afgreiða (Forseti hringir.) það með frávísunartillögu, en mönnum ber greinilega ekki saman um það. Það eru bara (Forseti hringir.) formenn flokkanna og þingflokksformenn sem geta sest (Forseti hringir.) niður og leyst þetta mál. (Forseti hringir.) Þangað til það gerist munum (Forseti hringir.) við vera hérna áfram. (Forseti hringir.) Skiljanlega.