149. löggjafarþing — 77. fundur,  7. mars 2019.

búvörulög.

646. mál
[15:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Ég ætla ekki að tefja þetta mál neitt. Ég ætlaði bara að koma að nokkrum punktum sem ég taldi ekki rúmast í andsvari.

Í fyrsta lagi er það auðvitað rétt, sem kom fram í andsvari hæstv. ráðherra, að samningur við einstaka atvinnugrein, hvort sem það er í sauðfjárrækt eða einhverju öðru, getur ekki haldið uppi byggðaþróun í landinu, en slíkir samningar geta, líkt og ráðherra benti á, held ég, verið hluti af stærri heild. Þess vegna er mikilvægt að byggðamálin öll séu skoðuð út frá einhvers konar heildrænni og heildstæðri stefnu. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar um töluvert langan tíma að málaflokkur byggðamála eigi heima í forsætisráðuneytinu, þar sem hann liggur þvert á öll önnur ráðuneyti, og þar á meðal sé tekið tillit til samgangna, landbúnaðar o.s.frv.

Varðandi þetta ágæta mál vil ég fyrst segja að ef ég man rétt samþykktu sauðfjárbændur samninginn, 70% þeirra samþykktu samninginn sem verður að teljast mjög gott. Það er mikill stuðningur við samninginn. Því ber að fagna og óska ég ráðherra líka til hamingju með það. Það þýðir einnig að einhver minni hluti þeirra er óánægður með þetta og ber okkur að sjálfsögðu að taka tillit til þess eða huga að því hvað það er. Örlítil gagnrýni hefur komið fram áður í þessum sal á hæstv. ráðherra um að þetta hafi tekið svolítið langan tíma og held ég að það sé kannski að mörgu leyti réttmæt gagnrýni en svo kann ráðherra eflaust að hafa ýmsar málsbætur í því að þetta hafi tekið einhvern tíma. En gott er að samningurinn er klár.

Afurðastöðvarnar geta vissulega haft með sér samstarf og samráð þegar horft er til útflutnings og markaðssetningar erlendis. Það er hins vegar ekki gert nema að litlu leyti sem er dapurlegt og vandamál í rauninni heima fyrir. Það sem skortir kannski á og við höfum rætt í þessum þingsal, fleiri en eitt þingmál hefur verið skrifað um það og jafnvel flutt, er að heimild til samstarfs og hagræðingar innan lands er ekki til staðar. Það held ég að þurfi að eiga sér stað. Það þarf að vera heimild til verkaskiptingar líkt og við höfum séð t.d. í mjólkurframleiðslunni.

Að því sögðu langar mig að nefna nýsköpun. Við höfum orðið vitni að mikilli nýsköpun í matvælaframleiðslu, bæði í sjávarútvegi og hluta landbúnaðarins. Vil ég nefna mjólkurgerð sérstaklega þar sem sífellt er verið að þróa og koma fram með nýjar afurðir. Sauðfjárræktin eða landbúnaður annar en kjötrækt, ég ætla bara að orða það þannig. Kjötið hefur verið svolítið á eftir hvað þetta varðar, en við höfum séð dæmi um að það er að þróast í rétta átt. Og ekki síst fyrir gott tilstilli og samstarf bænda og Matís hafa menn verið að þróa ferla og hugmyndir til að auka virði, bæta gæði og í rauninni koma fram með nýjungar og nýsköpun í landbúnaðinum. Nægir að nefna landbúnaðarklasann, svo dæmi sé tekið. Svo er nýlega búið að kynna svokallaðan viðskiptahraðal þar sem frumkvöðlar geta komið með sínar hugmyndir og fengið aðstoð við að hrinda þeim í framkvæmd. Allt miðar þetta að því að styrkja undirstöðurnar, styrkja landbúnaðinn, ekki síst kannski það sem snýr að kjötframleiðslu og kjötrækt.

Bændur landsins eru gríðarlega mikilvægir íslensku þjóðinni. Þeir eru mikilvægir í dag og þeir verða mikilvægari í framtíðinni vegna þess að framleiðsla matvæla, ég tala ekki um hollra og góðra matvæla, verður einn af þeim þáttum sem aðgreinir ríki framtíðarinnar frá öðrum ríkjum, þ.e. að geta framleitt vöru, orku ofan í þegna sína, með umhverfisvænum, hollum og góðum hætti. Þar held ég að íslenskur landbúnaður og íslenskir bændur muni geta staðið upp úr.

Það er hins vegar umhugsunarefni, og kemur aðeins að því sem ég nefndi áðan varðandi nýsköpunina, að við erum enn að sjá þessa frábæru vöru, og eru ýmsar skýringar á því, nánast í grisjupokum í frosti í stórmörkuðum selda á hlægilegu verði í rauninni. Fólk getur keypt úrvalskjöt fyrir sama verð og eina stóra pitsu og mettað fjölskylduna. Það er alveg dæmalaust í mínum huga. Við þurfum að vinna betur úr þessu. Að öðru leyti þakka ég ráðherra fyrir ræðuna.