151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

endurskoðuð landsskipulagsstefna 2015--2026.

705. mál
[21:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu. Kveðið er á um landsskipulagsstefnu í skipulagslögum, nr. 123/2010, og felur hún í sér samræmda stefnu ríkisins um skipulagsmál til 12 ára.

Landsskipulagsstefna var í fyrsta skipti samþykkt á Alþingi á árinu 2016. Gildandi landsskipulagsstefna felur í sér stefnu um fjögur viðfangsefni; skipulag á miðhálendi Íslands, skipulag í dreifbýli, búsetumynstur og dreifingu byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum. Á árinu 2018 fól ég Skipulagsstofnun að hefja vinnu við endurskoðun stefnunnar þar sem ég lagði áherslu á að nánari stefna yrði mótuð um loftslagsmál, landslag og lýðheilsu. Stofnuninni var jafnframt falið að yfirfara þann hluta landsskipulagsstefnu sem fjallar um skipulag haf- og strandsvæða.

Tillaga sú sem hér liggur fyrir byggir á þeim þáttum sem ég hef lagt áherslu á og felur í sér viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu 2015–2026.

Sá hluti tillögunnar sem lýtur að loftslagsmálum er í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum en aðgerð G.11 kveður á um að setja fram stefnu og leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um hvernig beita megi skipulagsgerð í tengslum við loftslagsmál. Tillagan var unnin af Skipulagsstofnun í virku samráði við ráðgjafarnefnd um landsskipulagsstefnu, sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök og samráðsvettvang sem hefur verið mótaður. Tillaga Skipulagsstofnunar var auglýst og kynnt opinberlega auk þess sem hún var send út til umsagnar fjölmargra aðila. Stofnunin fór yfir þær umsagnir og athugasemdir sem bárust og skilaði greinargerð sinni um þær til mín samhliða tillögu að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu í mars sl. Með tillögu að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu og fyrrnefndri greinargerð fylgir einnig umhverfismat tillögunnar og yfirlit yfir stefnur og áætlanir stjórnvalda sem varða skipulagsmál.

Í tillögunni er áfram byggt á mikilvægum leiðarljósum gildandi stefnu en þau eru að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun, sé sveigjanlegt og stuðli að seiglu gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum og lífsgæðum fólks og styðji jafnframt samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta. Lagt er til í tillögunni að þremur nýjum köflum verði bætt við stefnuna með áðurgreindum áherslumálum og bera kaflarnir heitið Loftslagsmiðað skipulag, Staðarmótun og landslagsvernd og Heilsuvæn byggð og landnotkun. Stefnan sem lögð er til í nýjum köflum á eftir atvikum við um öll viðfangsefni gildandi landsskipulagsstefnu og er ætlað að dýpka og útfæra hana frekar. Kaflarnir tvinnast einnig saman með ýmsum hætti. Tilteknar skipulagshugmyndir sem skila margþættum ávinningi koma því endurtekið fyrir, þvert á viðfangsefni. Má þar nefna skipulagshugmyndina um 20 mínútna bæinn eða hverfið sem birtist í öllum nýju köflunum. Áhersla á græna innviði er einnig gegnumgangandi í tillögunni enda geta slíkir innviðir haft ávinning í för með sér á mörgum sviðum, m.a. til að auka viðnámsþrótt gegn afleiðingum loftslagsbreytinga, bæta og fegra umhverfið og stuðla að aukinni hreyfingu og bættri heilsu fólks.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að skoða og túlka þá stefnu sem fram kemur í tillögunni sem eina heild, auk þess sem hana ber að túlka með hliðsjón af gildandi landsskipulagsstefnu. Við skipulagsgerð sveitarfélaga þarf einnig að samþætta eins og kostur er þau mismunandi markmið sem að er stefnt og leita leiða til að ná margþættum ávinningi með sömu aðgerðum.

Í endurskoðaðri stefnu er einnig lagt til að bætt verði við fyrirliggjandi stefnu um skipulagsmál á haf- og strandsvæðum tillögu um að hafin verði vinna við gerð strandsvæðisskipulags í Eyjafirði og á Skjálfanda að lokinni yfirstandandi vinnu við gerð skipulags á Vestfjörðum og Austfjörðum. Auk þessa er skerpt á áherslum stefnunnar með hliðsjón af nýjum lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Tillagan um hin nýju svæði byggir á ábendingum sem Skipulagsstofnun hafa borist. Í Eyjafirði og á Skjálfanda er fjölbreytt starfsemi og nýting, áhugi og áform um frekari nýtingu auðlinda auk þess sem mikil og aukin umferð er á svæðunum. Þessir þættir ásamt fleirum kalla á þörf fyrir gerð strandsvæðisskipulags í Eyjafirði og á Skjálfanda.

Í hverjum kafla tillögu þessarar er fyrst sett fram eitt yfirmarkmið fyrir hvern kafla og síðan nánar útfærð markmið tilgreind um einstaka efnisþætti.

Yfirmarkmið kafla um loftslagsmiðað skipulag er að skipulag stuðli að kolefnishlutleysi og efli viðnámsþrótt byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga. Loftslagsmál eru víðfeðmur málaflokkur sem teygir anga sína inn á flest svið samfélagsins. Ljóst er að loftslagsvandinn kallar á kerfisbreytingar og endurhugsun á umhverfi okkar og innviðum. Þörf er á umbyltingu í orkunotkun samgangna og aðgerðum sem skapa forsendur fyrir loftslagsvænni hegðun, þar á meðal breytingum á ferða- og neysluvenjum. Um leið þarf að búa samfélagið undir loftslagsbreytingar og verja byggð og samfélagslega innviði gagnvart afleiðingum þeirra. Áherslur og aðgerðir í skipulagi geta með ýmsum hætti stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu. Auk þess getur skipulag falið í sér aðgerðir til að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga líkt og hækkun sjávarstöðu. Horfa þarf heildstætt á slíkar aðgerðir og samræma stefnumótun um þær með það að markmiði að þær hafi ekki neikvæð áhrif á aðlögunarhæfni samfélagsins og öfugt. Til að ná megi settum markmiðum, þar á meðal markmiði um kolefnishlutleysi, er lykilatriði að loftslagsmarkmið séu samþætt stefnumótun og áætlanagerð á sem flestum sviðum og verði með þeim hætti innbyggð inn í efnahagslega og samfélagslega þróun.

Tilgreint yfirmarkmið kafla um staðarmótun og landslagsvernd er að skipulag varðveiti og efli gæði sem felast í landslagi og sérkennum náttúru og byggðar. Landslag samanstendur af bæði náttúrufarslegum og menningarlegum þáttum og skynjun okkar á þeim. Ljóst er að mannvirkjagerð og breyting á landnýtingu getur haft áhrif á landslag með ólíkum hætti. Byggingar og skógrækt geta lokað sjónlínum og stór mannvirki eins og háspennulínur og vindmyllur geta breytt yfirbragði svæða, svo dæmi séu tekin. Eins getur húsum, götum í þéttbýli, vegum til sveita og útivistarstígum verið þannig fyrir komið að fólki gefist tækifæri til að skynja og öðlast nýja sýn á landslag viðkomandi svæðis. Mikilvægt er að skipulagsgerð sé beitt til að tryggja að staðsetning og útfærsla nýrra mannvirkja og byggðar hámarki tækifæri til að varðveita fjölbreytt og verðmætt landslag á Íslandi, svo sem óbyggð víðerni, sérstakar landslagsheildir og búsetulandslag sem hefur menningarlegt gildi. Ekki er síður mikilvægt að nýta skipulagsgerð til þess að ný byggð skapi góða umgjörð um mannlíf með vandaðri og viðeigandi útfærslu á fyrirkomulagi byggðar og almenningsrýma.

Í nýjum kafla um heilsuvæna byggð og landnotkun er tilgreint yfirmarkmið að skipulag stuðli að góðri heilsu og vellíðan. Upphaf nútímaskipulagsgerðar í kringum aldamótin 1900 má m.a. rekja til áherslu frumkvöðla í skipulagsmálum á þeim tíma á umbætur í heilbrigðismálum. Þá tengdist það ekki síst híbýlum fólks, loftgæðum í bæjum og borgum, aðgangi að hreinu neysluvatni og fráveitu skólps. Á seinni árum hefur athygli á ný, í vaxandi mæli, verið beint að áhrifum skipulags á lýðheilsu. Þá er m.a. horft til þess hvernig fyrirkomulag byggðar getur hvatt til og auðveldað útiveru og daglega hreyfingu. Einnig hvernig má, með útfærslu byggðar og almenningsrýma, stuðla að vellíðan og skapa tækifæri til samveru, auk þess að tryggja heilnæmi umhverfisins. Manngert og náttúrulegt umhverfi hefur áhrif á heilsu með margvíslegum hætti. Þróun lýðheilsu og lýðfræði gefur tilefni til að huga að því hvernig nýta má skipulag byggðar og landnotkunar til að efla allar hliðar heilsu. Heimsfaraldur kórónuveiru og aðgerðir sem grípa hefur þurft til vegna hans hefur síðan enn frekar minnt á mikilvægi þess að tryggja góðar aðstæður til göngu og hjólreiða og aðgengi að góðum og fjölbreyttum útivistarmöguleikum og náttúrusvæðum.

Hverju markmiði í tillögu að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu er fylgt eftir með aðgerðum eða leiðum sem ætlað er að stuðla að framfylgd viðkomandi markmiðs. Annars vegar er um að ræða tilmæli og aðgerðir sem beint er til sveitarfélaga að vinna að í skipulagsáætlunum sínum. Hins vegar er um að ræða ýmis verkefni stjórnvalda sem vinna að útfærslu og framfylgd stefnunnar. Þar getur verið um að ræða leiðbeiningar- eða þróunarverkefni. Vinna að framfylgdarverkefnum stefnunnar kallar á samráð og samstarf ráðuneyta, stofnana, sveitarfélaga og eftir atvikum annarra aðila.

Sem dæmi um tilmæli til sveitarfélaga eru tilmæli um gerð stefnu um loftslagsmiðað skipulag í aðalskipulagi og eftir atvikum í svæðisskipulagi, sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu með kolefnishlutleysi að leiðarljósi, og sem inniheldur stefnu um aðlögun byggðar og samfélags að afleiðingum loftslagsbreytinga. Jafnframt að ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar taki mið af þeim gæðum sem felast í landslagi. Einnig er gert ráð fyrir að við skipulagsgerð sveitarfélaga verði leitast við að skapa heilnæmt umhverfi sem hvetji til hollra lífshátta og veiti möguleika til hreyfingar, endurnæringar og samskipta. Við útfærslu byggðar og bæjarrýma verði þá gætt að jafnræði, fjölbreytileika, öryggi og aðgengi ólíkra hópa.

Sem dæmi um önnur verkefni stjórnvalda í tilllögunni er gerð ýmissa leiðbeininga Skipulagsstofnunar, m.a. um loftslagsmiðað skipulag og um mat á loftslagstengdum áhrifum skipulags og annarra áætlana, loftslagsvæna landnotkun, aðlögun að loftslagsbreytingum í skipulagi byggðar, staðarmótun, landslagsgæði og landslagsvernd, um skipulag og hönnun bæjar- og göturýma og stefnumótun og skipulagssjónarmið um nýtingu vindorku með tilliti til landslags.

Eins og greina má er landsskipulagsstefnu fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga. Landsskipulagsstefna hefur hins vegar einnig áhrif á áætlanir stjórnvalda á landsvísu sem varða landnotkun og byggðaþróun. Gert er ráð fyrir að við mótun slíkra áætlana sé horft til þeirra áherslna sem settar eru fram í landsskipulagsstefnu. Það getur átt við áætlanir eins og byggðaáætlun, kerfisáætlun, rammaáætlun og samgönguáætlun svo dæmi séu tekin.

Hæstv. forseti. Með breytingum á loftslagslögum árið 2019 var lögfest að Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins, fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins og sveitarfélög skyldu setja sér loftslagsstefnu með skilgreindum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfsemi sinnar. Með þessari þingsályktunartillögu eru tilmæli til sveitarfélaga um að setja fram sýn og stefnu er snýr að skipulagi og þar með tekist á við loftslagsmálin á stærri skala. Með þessu þróum við og þroskum skipulagspólitík á Íslandi, þar sem ríkið hefur það hlutverk að útvega og vinna greiningar og leiðbeiningar fyrir sveitarfélögin, en þau leggja fram loftslagsmiðað skipulag.

Að mínu mati er hér um að ræða afar mikilvægt skref í loftslagsmálum og skipulagsmálum á Íslandi. Að auki í sambandi við loftslagsmálin eru svo þeir þættir er snúa að landslagi og lýðheilsu, sem skipta einnig miklu máli í að þróa skipulag á 21. öldinni. Í reynd er mikil samlegð á milli þessara þriggja áhersluþátta tillögunnar og nægir þar að nefna hugmyndina um 20 mínútna bæinn eða hverfið, sem þjónar í senn loftslagsmarkmiðum, markmiðum um bætta lýðheilsu að teknu tilliti til gæða landslags og varðveislu þess.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða landsskipulagsstefnu og legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.