154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:26]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir gott samstarf í þessu máli. Við höfðum mjög skamman tíma til að afgreiða það og ég hefði viljað hafa lengri tíma til að gera það. Mér finnst almennt erfitt að taka svona stuttan tíma í vinnslu flókinna mála einfaldlega vegna þess að það leiðir oft til mistaka og þá fá ekki öll sjónarmið að heyrast. En það liggur mikið við og það kom líka fram eindregin ósk af hálfu þeirra sem komu fyrir nefndina að bíða ekki með afgreiðslu þessa frumvarps heldur klára það, enda er þingið á leiðinni í kjördæmaviku í næstu viku og því hefði það tafið vinnuna töluvert ef það hefði ekki klárast í þessari viku. En það breytir því ekki að þetta var ansi skammur tími sem við höfðum til að vinna þetta mál.

Varðandi efnisatriði frumvarpsins þá er þetta mjög afmarkað mál að því leytinu til að það nær til fyrirtækja, þ.e. tekjur skattskylds atvinnureksturs eða sjálfstæðrar starfsemi fyrirtækja sem voru með fasta starfsstöð í Grindavíkurbæ 10. nóvember 2023 og hafa upplifað tekjufall upp að a.m.k. 40% vegna jarðhræringanna í Grindavík. Það hafa komið fram ábendingar í þó nokkuð mörgum umsögnum, og það er kannski það sem ég var að leita eftir í andsvörum mínum við hv. framsögumann málsins, að málið nái ekki utan um svo mikið af því tekjufalli eða tapi sem fyrirtækin verða fyrir í Grindavík og hentar ekki öllum fyrirtækjum sem eru með fasta starfsstöð í Grindavík vegna ýmissa þátta. Til að mynda tekur þetta ekki tillit til þess aukna kostnaðar sem það að þurfa að færa sína starfsstöð felur í sér, þess útlagða kostnaðar. Það er ekki álitið sem beinlínis tekjutap. Og fyrir þá sem eru ekki með starfsmenn í eiginlegum skilningi þá nýtist þetta ekki heldur, til að mynda þeim sem eru með verktakasamninga eða annað þannig að þeir geta ekki leitað í þetta úrræði. Það er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt að nefndin skoði í framhaldinu. En eins og ég segi, þetta er mjög afmarkað mál og það er mjög erfitt að ætla að útvíkka það á svona stuttum tíma svo vel sé af því að þá fyrst fara mistökin að gerast. Ég ákvað því að það væri frekar mikilvægt að halda nefndinni við efnið og fylgjast vel með. Ég held líka að það sem mörg fyrirtæki á þessu svæði eru að bíða eftir sé meiri langtímasýn á hvað á að gera t.d. gagnvart atvinnuhúsnæði sem er ekki inni í frumvarpinu sem við erum að fara að ræða á eftir varðandi uppkaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Auðvitað eiga mörg fyrirtæki í Grindavík mjög mikið undir því hvað verður gert við atvinnuhúsnæði og það er ekkert tekið á því í þessu frumvarpi heldur. Þetta undirstrikar kannski bara hvað þetta er afmarkað frumvarp sem ég held þó að sé mjög mikilvægt fyrir mörg fyrirtæki, sérstaklega einstaklinga sem eru í sjálfstæðri starfsemi.

Mér finnst líka mikilvægt að árétta helstu álitamálin innan nefndarinnar varðandi það í hvað þessi stuðningur getur verið notaður. Það voru spurningar uppi um hvort hægt væri að nota þennan tímabundna rekstrarstuðning til að greiða laun starfsmanna. Það var ekki skýrt fyrir mörgum þeim sem lásu frumvarpið, og ég verð að segja líka fyrir okkur í nefndinni, fyrr en eftir umræðu og yfirlegu. Auk þess var spurt hvort það væri hægt að nota þennan rekstrarstuðning til greiðslu launa. Það er auðvitað bara skiljanlegt þar sem það er líka annað úrræði í gildi um launastuðning og þessu frumvarpi er ekki ætlað að einhvern veginn bæta við það frumvarp eða sem sagt að fyrirtækið geti fengið tvöfaldar greiðslur þegar kemur að launagreiðslum. Það er nú kannski það sem ég er að meina. Þannig að til að taka af allan vafa þá förum við yfir það í nefndarálitinu hvernig þessi tímabundni rekstrarstuðningur sem hér er verið að bjóða upp á nýtist nákvæmlega í launagreiðslur. Það er annars vegar hægt að nota þennan tímabundna rekstrarstuðning í launagreiðslur til að greiða laun sem eru umfram hámarkið sem er í launastuðningsúrræðinu, sem er 633.000 kr., ef ég man rétt. Ef fyrirtæki ákveða að greiða hærri laun en þetta framlag ríkisins í launastuðningi þá geta þau notað þetta úrræði til að greiða þessi hærri laun, þ.e. bara það sem nær yfir þessi 633.000. Það var mjög mikilvægt að mínu mati að hafa það algerlega skýrt að þetta væri heimilt til að auðvelda fyrirtækjunum sem sannarlega greiða hærri laun en þetta hámark í launastuðningnum að gera það, að þau geti notið stuðnings til að gera það í gegnum þetta úrræði.

Skilyrðin gagnvart því að njóta launastuðningsúrræðisins sem er nú þegar í gildi eru að viðkomandi starfsmenn geti ekki unnið vegna jarðhræringa, þannig að það er ekki fyrir öll fyrirtæki þar sem sum þeirra hafa flutt starfsemi sína eða eru á einhvern hátt að vinna og eru með starfsmenn í vinnu. Þau geta ekki nýtt sér það úrræði af þeim sökum. Þar af leiðandi var líka mjög mikilvægt að koma inn á það í nefndaráliti að það mætti nota þennan rekstrarstuðning til greiðslu launa starfandi starfsmanna fyrirtækja í Grindavík.

Mér finnst bara mjög mikilvægt að koma hingað upp og útlista þetta eins nákvæmlega og ég get og eins skýrt og ég get vegna þess að þetta var bara alls ekki skýrt í nefndinni allan tímann. Þessi útskýring og yfirferð í nefndarálitinu kemur til vegna ábendinga frá Skattinum sem var mjög gott að fá og voru mjög greinargóð samskipti við Skattinn á nefndarfundi og ber að þakka fyrir það.

Ég vil líka víkja að því sem ég benti á í andsvari við hv. framsögumann hérna áðan sem snýr að því að nefndin ákveður að framlengja gildistíma þessa úrræðis og þar af leiðandi líka umsóknarfrestinn fyrir úrræðið; gildistímann til 1. júní og umsagnarfrestinn til 1. júlí. Ég rak augun í það við fjórðu yfirferð á þessu máli hérna áðan að við þessa tilfærslu gleymdist að færa til skilyrði fyrir því að viðkomandi fyrirtæki megi ekki greiða sér út arð í ákveðinn tíma eftir að stuðningsúrræðinu er lokið. Það er í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins um endurgreiðslur, vonandi fer ég rétt með. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ef aðili sem fengið hefur rekstrarstuðning samkvæmt lögum þessum greiðir út arð, kaupir eigin hlutabréf eða ráðstafar með öðrum hætti fé til eigenda sinna, öðruvísi en í formi launa eða til samræmis við skuldbindingu sem stofnað var til fyrir 7. febrúar 2024, fyrir 1. maí 2025 skal hann endurgreiða þann rekstrarstuðning sem hann hefur fengið.“

Þetta ákvæði held ég að miði algerlega við það að tímabilinu ljúki 1. apríl, eins og lagt var upp með í frumvarpinu, og að umsóknarfresturinn sé til 1. maí, eins og lagt var upp með í frumvarpinu, þ.e. 2024, þannig að fyrirtækjum sé óheimilt að greiða sér út arð í eitt ár eftir að gildistíma úrræðisins lýkur. Nú er það þannig að við erum að framlengja gildistíma úrræðisins um ársfjórðung, slétta þrjá mánuði. Þar af leiðandi þætti mér mjög eðlilegt að við myndum líka framlengja þessa kvöð um að ekki megi greiða út arð, kaupa eigin hlutafé o.s.frv., samanber það sem ég var að lesa hérna, eða ráðstafa með öðrum hætti fé til eigenda sinna í ár eftir að gildistíma úrræðisins lýkur. Ár finnst mér ekki langur tími. Mig minnir alveg sterklega að það hafi verið tvö ár í úrræðunum sem voru í gildi í Covid. En ég verð þá bara leiðrétt ef ég man þetta vitlaust. Mér finnst það því ekki sérlega langur tími sem þetta gildir gagnvart ríkisstuðningi sem þessum en finnst það svo sem eðlilegt að það sé skemmri tími þegar kemur að þessu bráðabirgðaúrræði en Covid-úrræðunum sem voru auðvitað miklu, miklu umfangsmeiri. En það breytir því ekki að mér finnst skrýtið að þessi endurgreiðsluskylda, ef viðkomandi fyrirtækið greiðir út arð, ætti að gilda bara í þrjá ársfjórðunga en ekki eitt ár eins og lagt er upp með í frumvarpsdrögunum eins og þau voru lögð fyrir þingið.

Það er kannski það helsta sem ég hef um þetta að segja, fyrir utan auðvitað að það hafa komið fram margvíslegar athugasemdir varðandi takmörkun sem er í þessu frumvarpi á t.d. fjölda þeirra starfsmanna sem þetta getur átt við um og auðvitað líka upphæðina og annað. Það má auðvitað deila um það fram og til baka, en ég upplifði ekki að það væri mikið svigrúm til að vera eitthvað að hnika þessu til en mér fannst aftur á móti komið til móts við flestar aðrar athugasemdir sem ég hafði við frumvarpið. En það breytir því ekki að auðvitað, svo að ég endurtaki það sem ég sagði áður, nær þetta alls ekki utan um alla þá starfsemi sem er í Grindavík og þann skaða sem hún hefur orðið fyrir.

Ég minntist líka á þennan stóraukna kostnað sem fellur til við t.d. bara akstur til og frá vinnu og að þurfa að setja upp nýja starfsstöð og alls konar svona hluti sem leggjast ofan á, og svo auðvitað bara þessi gríðarlega óvissa sem er enn þá uppi um atvinnuhúsnæði í Grindavík og framtíð þess. Ég hef mikla samúð og samkennd með fyrirtækjum í Grindavík að vita ekki og hafa ekki fengið skýr svör frá stjórnvöldum um hvað verður um þau hús, hvað verður gert varðandi þær eignir. Mér finnst það alls ekki liggja ljóst fyrir og mér finnst það bagalegt. Það kom einmitt fram fyrir nefndinni að fyrir einyrkja og smærri fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki, þá er kannski stærsta eignin í fyrirtækinu húseignin, atvinnuhúsnæðið, hangi jafnvel saman við ákvörðun fólks um hvort það vilji selja eignina sína til ríkisins, hvað verði um fjölskyldufyrirtækið, eignina, atvinnuhúsnæðið og það sé eiginlega ekki hægt að taka ákvarðanir gagnvart heimilinu ef maður veit ekki hvað verður um atvinnuhúsnæðið. Þetta sé mjög samverkandi og að þessi óvissa sé mjög slæm varðandi það að taka ákvörðun um framhaldið, líka varðandi framtíðarbúsetu og annað. Þannig að við sjáum að þó að þetta frumvarp sé mjög afmarkað þá vekur það upp töluverðar spurningar og sýnir okkur hvernig þetta hangir allt saman. Það hvetur okkur auðvitað til dáða í því að hafa breiðara net og reyna að ná betur utan um atvinnulífið í Grindavík en þetta frumvarp nær að gera.

Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að við fáum ráðherra á fund til efnahags- og viðskiptanefndar sem allra fyrst, væntanlega verður það ekki fyrr en að aflokinni kjördæmaviku, en þá bara helst á fyrsta fundi eftir það, til að fara yfir plön ráðherra varðandi atvinnuhúsnæði í Grindavík, vegna þess að mér hefur fundist mjög fátt um svör þar. Þó að það sé mjög jákvætt að við höfum framlengt umsóknarfrestinn eða umþóttunartímann eða ákvörðunarfrestinn sem fólk hefur til að ákveða hvort það vilji selja fasteignina sína í Grindavík eða ekki, til ríkisins — eins og það liggur fyrir núna er breytingartillaga um að framlengja það til, ég held að það sé 1. janúar 2025 — þá breytir það því ekki að auðvitað er töluvert mikill þrýstingur á að reyna að koma sér út úr þessum skuldum og út úr þessum aðstæðum sem allra fyrst. Það er töluvert mikill þrýstingur á að taka ákvörðun þótt við höfum framlengt frestinn sem fólk hefur til að taka ákvörðun. Þeim mun lengur sem við höldum fólki, sem er kannski með sjálfstæðan rekstur í Grindavík, í þessari óvissu um hvað verður um t.d. atvinnuhúsnæði, þeim mun erfiðara verður fyrir það að taka ákvörðun á meðan þessi óvissa ríkir. Þannig að burt séð frá því að við höfum framlengt frestinn þá er samt alls konar pressa á að komast út úr skuldunum í húsnæðinu í Grindavík og komast inn á nýtt framtíðarheimili. Það breytist ekkert þótt við höfum framlengt frestinn sem fólk hefur til að ákveða sig. Mér finnst þar af leiðandi mjög mikilvægt að við vinnum hratt og vel að því að fá mjög skýr svör varðandi það hvað á að gera fyrir atvinnuhúsnæði í Grindavík. Ég held að það hafi mikla þýðingu og sé miklu gagnlegri ákvörðun en kannski þetta frumvarp. Þó að það sé auðvitað bara mjög gott og góðra gjalda vert að við höfum náð að ljúka því þá held ég að meginatriðið sé að við förum að einbeita okkur að atvinnuhúsnæðinu.