151. löggjafarþing — 77. fundur,  13. apr. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæða um tilgreinda séreign.

700. mál
[17:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég notaði þetta orðalag, að standa í orðaskaki. Þá var ég bara að vísa til þess að ég ætlaði ekki að flytja margar ræður og andsvör hér í dag til að fara inn á þetta mál. Ég lít ekki þannig á að ég og hv. þingmaður séum í miklu orðaskaki í sjálfu sér. Þetta sjónarhorn á breytingar á vísitölunni endurspeglar í mínum huga áhyggjur fólks af verðbólgu og það er skiljanlegt að eldri kynslóðin í landinu, sem þurftu lengi að glíma við mikla verðbólgutíma, hafi áhyggjur af þessu. Ég skil það mjög vel. Ég hef oft látið þess getið að verðbólgan var aldrei undir 20% þegar ég var ungur maður. Bara frá því að ég fór í leikskóla og þar til ég fór í háskólann var verðbólgan alltaf 20% og meira — alltaf. En þeir tímar eru liðnir núna. Við búum við mun meiri verðstöðugleika og ef okkur tekst að viðhalda því ástandi er þetta atriði ekki jafn stórt og menn vilja vera láta.