154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[13:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsögu sína og fyrir samstarfið í nefndinni. Mér heyrist við öll á svipuðum slóðum sem erum í andsvörum við hv. þingmann varðandi gildissvið þessa frumvarps og umfang þeirra aðgerða sem verið er að bjóða upp á gagnvart atvinnustarfsemi á í Grindavík og hvort ekki þurfi meira að koma til til að takast á við það óvissuástand sem nú ríkir gagnvart fyrirtækjunum í Grindavík.

Hv. þingmaður fór yfir það í framsöguræðu sinni að nú þegar væri í gildi launastuðningur sem beinist kannski einna helst að launafólkinu sjálfu. Síðan erum við með frestun á greiðslu opinberra gjalda sem er auðvitað gott og vel en er samt sem áður bara gálgafrestur, að endingu þarf að greiða þessi gjöld. Síðan erum við með þetta frumvarp sem, eins og hefur komið fram í umræðunni, hefur takmarkað gildissvið. Það tekur t.d. ekki á því hvað verður um atvinnuhúsnæði í Grindavík sem skiptir miklu máli fyrir fyrirtækin í Grindavík og skiptir líka auðvitað miklu máli fyrir heimilin í Grindavík. Eins og ég kom inn á í minni framsöguræðu, og við urðum þess áskynja í umfjöllun nefndarinnar þegar við fengum til okkar gesti, þá er það þannig að oft hangir þetta saman; heimili fólks, hvert það vill flytja, hvað það vill gera og hvað verður um húsnæðið sem það byggði utan um atvinnustarfsemi sína í Grindavík. Við höfum ekki að mér vitandi fengið í raun nokkra hugmynd um hvað bíður þessara fyrirtækja þegar kemur að atvinnuhúsnæðinu eða styrkjum til að koma sér upp starfsstöð annars staðar, alla vega hefur verið afskaplega fátt um svör. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé meðvitaður um hvort við megum vænta þess að fá skýr svör um þetta einhvern tímann fljótlega (Forseti hringir.) vegna þess að ég held að það sé töluvert erfitt fyrir fólk að vita ekkert en þurfa samt að taka ákvörðun um hvort það vilji kaupa nýtt húsnæði eða ekki.