154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Ég kom inn á þá ráðstöfun og þá heimild í framsögu minni og það kemur fram í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að ráðherra geti ráðstafað 15 milljörðum úr náttúruhamfaratryggingum. Þetta kemur til vegna þess samspils sem er núna vegna þessarar aðgerðar og þeirrar óvissu sem er uppi um hvert verði heildartjón Náttúruhamfaratryggingar Íslands í Grindavíkurbæ. Sá atburður er ekki liðinn og það er óvissa sem ríkir um þetta. Það er grundvallarbreyting á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands að heimila slíka ráðstöfun en í ljósi þess að þetta er slík undantekning og slíkar fordæmalausar aðstæður og í ljósi þessa samspils um hvert verði endanlegt tjón ríkisins sem það er tilbúið að taka á sig, svo sem með þessum aðgerðum eða fleirum, eða þá náttúruhamfaratrygginga, þá tel ég þetta ekki óeðlilega aðgerð (Forseti hringir.) í ljósi þessara aðstæðna. En það er mikilvægt í þessu ljósi og út af öðrum ástæðum að Alþingi hugi að framtíðarfjármögnun Náttúruhamfaratryggingar Íslands.