154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[15:58]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem ég er með á nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar en ég er á áliti meiri hluta nefndarinnar í þessu máli. Það er fyrst og fremst vegna þess að loksins er hægt að ganga frá þeim uppkaupum sem svo margir Grindvíkingar hafa kallað eftir þannig að þeir ráði yfir fjármagni til að geta tekið sjálfstæða ákvörðun um framtíð sína og búsetu en einnig vegna þess að jafnvel þó að verkefnið sem við stóðum frammi fyrir hafi verið risavaxið var augljóst að allir sem að því komu lögðu sig fram um að finna þá bestu og sanngjörnustu niðurstöðu sem unnt var.

Að þessu sögðu er samt ljóst að ekki verða allir á eitt sáttir því ekki var hægt að taka á öllu sem óskað var eftir og bent á enda þarfirnar gríðarlega margar og misjafnar. Ég ásamt Oddnýju G. Harðardóttur skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem lýtur að hlutfalli útgreiðslu af brunabótamati til íbúðareigenda og vegna fjármögnunar eignaumsýslufélagsins. Ég kem nánar að þessum atriðum síðar í þessari ræðu.

Leiðarljósið í þessu frumvarpi er orðað svo í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Árétta ber að frumvarpinu er ekki ætlað að bæta einstaklingum tjón af völdum hamfaranna sem orðið hafa í Grindavík heldur að gefa einstaklingum kost á að losna undan áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum og taka upp búsetu annars staðar.“

Frá upphafi snerist frumvarpið sem sagt um að hjálpa Grindvíkingum að koma sér upp nýju heimili í stað þess sem glataðist. Nú má að sjálfsögðu deila um þetta markmið og hvort markmiðið hefði átt að vera víðtækara. Persónulega myndi ég vilja bæta Grindvíkingum allt þeirra tjón án nokkurra fyrirvara, en ég tel að það hefði verið verulega erfitt að mæta öllum þörfum með þessu frumvarpi og hefði bara hugsanlega getað skapað ný vandamál. Þá verður að hafa hugfast að þó að þessi stuðningsaðgerð verði samþykkt þá er ekki þar með sagt að það komi ekki fleiri úrræði til handa Grindvíkingum í framtíðinni ef þörf krefur.

Miðað við áðurnefnda afmörkun viðfangsefnisins tel ég að vel hafi tekist til. Komið var til móts við flestar athugasemdir og ábendingar Grindvíkinga en ekki náðist samstaða um að miðað yrði við 98% brunabótamat. Helstu rökin fyrir því viðmiði voru að mínu mati þau að það er hlutfallið sem náttúruhamfaratryggingarsjóður greiðir út við altjón ef t.d. hús fer undir hraun. Vegna þessa gerði ég fyrirvara við að miðað væri við 95% af brunabótamati. Að því sögðu er vert að hafa í huga að í upphafi stóð til að miða við 90% af brunabótamati þannig að hækkun upp í 95% er bót til hins betra.

Það er ástæða til að fagna því sérstaklega að við fasteignakaup njóti allir Grindvíkinga sömu réttinda og fyrstu kaupendur þannig að veðsetningarhlutfall þeirra geti verið 85% í stað 80% og afborgun lána megi miðast við 40% af ráðstöfunartekjum í stað 35%. Einnig er ánægjulegt að tímafrestir í frumvarpinu hafi verið lengdir en margir umsagnaraðilar bentu á hvað það væri Grindvíkingum mikilvægt. Ég hef, eins og sennilega margir aðrir þingmenn, ekki síst úr þessu kjördæmi, fengið fjölda skilaboða og símtala vegna íbúða einstaklinga sem eiga ekki lögheimili í þeim. Það er t.d. vel þekkt að fyrsta eign ungs fólks sé á nafni foreldra þeirra og svo búi unga fólkið jafnvel heima hjá foreldrum og leigi út íbúðina til að auðvelda kaupin. Svo gerast alls konar hlutir í lífinu eins og þegar fólk sem á sitthvora íbúðina verður ástfangið og flytur saman í aðra íbúðina en leigir út hina sem sá eigandi á þá ekki lögheimili í lengur, eða að einstaklingur leigir öðrum fjölskyldumeðlim íbúð ódýru verði en á ekki lögheimili þar sjálfur eða að námsmenn erlendis leigja íbúðina sína meðan á námi stendur. Hvað verður um þetta fólk? Það er ekki lögaðilar. Er það þar með búið að tapa eignum sínum?

Allir sem að vinnu við frumvarpið komu höfðu mikinn skilning á stöðu þessa fólks en þó var ljóst að einhver mörk yrðu að vera og að ekki væri hægt að skrifa allar undantekningar inn í frumvarpið. Niðurstaðan varð því sú að í lögunum er haldið inni lögheimilisskilyrðinu, en engu að síður er gefinn kostur á undanþágu í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er að víkja frá skilyrði um lögheimili ef tímabundnar aðstæður skýra að viðkomandi hafi ekki verið með skráð lögheimili í íbúðarhúsnæðinu.“

Gengið er út frá því að öll vafaatriði skuli túlka einstaklingi í vil svo hann njóti alltaf vafans.

Persónulega hafði ég þrennt að leiðarljósi í þessari vinnu: Í fyrsta lagi að Grindvíkingar fengju eins mikið fyrir heimili sín og mögulegt væri. Í öðru lagi að aðgerðin hefði ekki neikvæð áhrif á verðbólgu og vexti og svo í þriðja lagi að vinna við frumvarpið tæki stuttan tíma. Alveg sama hve vel er unnið og hve mikið við leggjum okkur fram þá er alltaf ljóst í svona málum að þegar línurnar eru dregnar verða ekki allir sáttir. En einhvers staðar þarf að draga línurnar og niðurstaða þessarar vinnu er frumvarpið sem lagt var fyrir þingið í dag. Vinnan við þetta frumvarp hefur í raun tekið ótrúlega stuttan tíma því að mörgu var að hyggja og sé litið til þess að markmið frumvarpsins var að gefa einstaklingum í Grindavík kost á að losna undan áhættu sem fylgir eignarhaldi íbúðarhúsnæðis í bænum og koma sér upp búsetu annars staðar, tel ég að það hafi tekist. Hvort ganga hefði átt lengra er svo önnur og flóknari umræða.

Ég gerði fyrirvara við fjármögnun frumvarpsins. Ég er algerlega andvíg fjáraukalagafrumvarpi fjármálaráðherra um 30 milljarða lántöku í erlendri mynt. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir að uppkaup á heilu bæjarfélagi kosta sitt og að sjálfsögðu þarf að fjármagna þau með einhverjum hætti en það er bara ekki sama hvernig það er gert. Ég tel enga þörf á lántökum vegna þeirra. Það er allt flæðandi í peningum í þessu landi. Þeir eru bara ekki aðgengilegir fyrir almenning eða þegar kemur að hagsmunum þeirra. En núna þurfum við að sækja þann aðgang. Forðast þarf með öllum ráðum að nauðsynleg fjármögnun þessa mikilvæga verkefnis auki byrðar heimilanna í landinu í gegnum aukna verðbólgu og aukna vaxtabyrði sem alltaf virðist fylgja í kjölfarið sem eina úrræðið í baráttunni gegn henni.

Nú er það svo að heimilin sem mest skulda og minnst eiga hafa borið allar byrðarnar af baráttunni gegn verðbólgunni á meðan aðrir hafa hagnast stórlega á henni. Auknar lántökur ríkissjóðs munu hafa bein áhrif á verðbólguna sem mun án tafar gefa Seðlabankanum fleiri ástæður til frekari vaxtahækkana. Í frumvarpi fjármálaráðherra er því ekki slegið föstu hve mikið þurfi að draga á þessa lánalínu en reynslan kennir manni að það sé líklegra en ella að gengið verði á hana að fullu. Það er hægt að vinna þetta með öðrum hætti, t.d. með því að skattleggja þann gríðarlega hagnað sem stórfyrirtæki hafa sýnt á undanförnum árum með einhverjum hætti. Það er hreinlega óeðlilegt að skattleggja ekki þann gríðarlega hagnað sem bankarnir hafa fengið á undanförnum árum beint frá heimilum landsins.

Ég kom með nokkrar tillögur um betri leiðir til fjármögnunar en lántökur í ræðu minni við 1. umræðu um fjáraukalög fjármálaráðherra til að mæta mögulegri fjárþörf vegna þeirrar óvissu sem ríkir sökum jarðhræringa á Reykjanesi. Ég nefndi þar m.a. hvalrekaskatta eins og t.d. bankaskatt og auðlindaskatt sem valkosti. Í þeirri ræðu fjallaði ég ítarlega um þessa valkosti og mun ekki endurtaka það allt hér en sé ríkisstjórninni einhver alvara með því að hennar forgangsmál sé að sigrast á verðbólgunni og slá á þenslu hlýtur hún að skoða aðrar leiðir en lántökur og þær eru vissulega margar til eins og ég hef þegar bent á. Það eru gríðarlega miklir fjármunir til í þessu þjóðfélagi og mikið af því fé er í höndum aðila sem hafa hagnast gríðarlega á verðbólgunni og fengið fjármuni heimilanna til sín í bílförmum. Tugþúsundir heimila á Íslandi eru aftur á móti komin fram á ystu nöf. Það að tafir verði á lækkun vaxta getur nægt til að ýta þeim fram af brúninni því þau hafa einfaldlega ekki úthald í meira. Þannig að verði ekki bara um tafir á lækkun vaxta að ræða heldur enn meiri hækkanir þarf ekki að spyrja að leikslokum.

Ég trúi því ekki fyrr en það verður að staðfestum veruleika og samþykkt hér á hinu háa Alþingi að það sé ekki hægt að gera betur en að fara bara beint í lántökur með tilheyrandi afleiðingum fyrir þjóðina alla en þó sérstaklega þau sem verst standa. Eins mikill og stuðningur minn er við Grindvíkinga mun ég því segja nei við lántökuheimild í fjáraukalögunum af fyrrgreindum ástæðum.

Að þessu sögðu fagna ég því að frumvarpið um uppkaup á húsnæði Grindvíkingar sé komið fram og vona að það gefi sem flestum möguleika á að koma sér upp nýju heimili og von um bjarta framtíð eftir erfiða tíma sem ekki sér enn fyrir endann á.