154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Stefán Vagn Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til fjáraukalaga frá meiri hluta fjárlaganefndar. Við erum hér að tala um fjáraukalagafrumvarp númer tvö á þessu ári og í báðum er verið að taka tillit til aðgerða er varða Grindavík og ástandsins þar.

Nefndin fjallaði um málið eftir að því var vísað til hennar 19. febrúar síðastliðinn og fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins komu á fund nefndarinnar og svöruðu spurningum sem þar komu fram. Nefndin kallaði ekki eftir umsögnum um málið en efni þess snýr eingöngu að ráðstöfunum vegna náttúruhamfara við Grindavík. Eins og áður sagði er þetta annað frumvarp ársins til fjáraukalaga en hið fyrra tengdist einnig alfarið jarðhræringum við Grindavík og var samþykkt á Alþingi 8. febrúar síðastliðinn.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á fjárlögum; á 5. gr. til hækkunar á lánsfjárheimild og á 6. gr. að því er varðar heimildarákvæði. Breytingar á 5. gr. felast í því að lögð er til allt að 30 milljarða kr. lántaka ríkissjóðs til viðbótar við þá 200 milljarða kr. sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Enn liggur ekki fyrir hvort heimildin yrði nýtt að fullu. Einnig er gerð tillaga um heimild til að endurlána allt að 12,5 milljarða kr. til nýs eignaumsýslufélags sem fær það hlutverk að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis í Grindavíkurbæ.

Breyting á 6. gr. fjárlaga felst í því að gerð er tillaga um stofnun þessa umsýslufélags. Áætlaður heildarkostnaður við uppkaupin er um 61 milljarð kr. sem yrði fjármagnaður með eiginfjárframlagi og lánsheimildum. Eigið fé verður nær allt í eigu ríkissjóðs og miðað við að félagið verði einnig fjármagnað með sambankaláni ríkissjóðs og lánveitenda á svæðinu. Það felur í sér að allar tekjur félagsins, sem stafa af mögulegum vátryggingarbótum frá eignasölu, koma fyrst til niðurgreiðslu á sambankaláninu eftir greiðslu rekstrarkostnaðar, þar sem ríkissjóður er einnig með hlutdeild, sbr. lánsheimild í 5. gr. Tekjur félagsins fara því bæði til lánveitenda íbúðalána í Grindavíkurbæ og ríkissjóðs eftir hlutdeild aðila í sambankaláninu. Það sem eftir stendur þegar félagið verður gert upp fer til ríkissjóðs sem eiganda félagsins.

Frumvarp til fjáraukalaga er lagt fram í tengslum við annað frumvarp, á þskj. 1053, sem varðar kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ og var rætt hér áðan. Í því frumvarpi er lagt til að einstaklingar sem falla undir gildissvið þess geti selt íbúðarhúsnæði sitt til sérstaks eignaumsýslufélags. Þar er einnig mælt fyrir um ákveðið fyrirkomulag og skilyrði fyrir kaupum, um fjárhæðir greiðslna, um umsýslu ríkisins á eignum sem keyptar eru og um fjármögnun. Til að hægt sé að framkvæma það sem kemur fram í fyrrgreindu frumvarpi er nauðsynlegt að fyrir liggi viðbótarheimildir í 5. gr. fjárlaga vegna lántöku og endurlána auk heimildar í 6. gr. vegna stofnunar eignaumsýslufélags og til að leggja félaginu til eiginfjárframlag til að standa undir skuldbindingum félagsins.

Nefndin óskaði eftir minnisblaði varðandi áform um lántöku ríkissjóðs á árinu. Í fjárlögum ársins 2024 er veitt almenn 200 milljarða kr. heimild til lántöku, ýmist innan lands eða í erlendri mynt. Viðbótin sem óskað er eftir, 30 milljarðar kr., er hugsuð í varúðarskyni. Samkvæmt þeim gögnum sem nefndin hefur aflað sér getur reynst þörf á að nýta hluta af þessum 30 milljörðum kr. sem óskað er eftir nú. Endanleg niðurstaða um heildarlánsfjárþörf ársins er þó háð ýmsum öðrum þáttum sem áhrif hafa á lántöku ríkisins, svo sem áformum um sjálfbæra eða græna lántöku og mati á því hvort styrkja þurfi gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Nauðsynlegt er að tryggja að viðbótarfjárveitingin verði eingöngu nýtt til að mæta mögulegri fjárþörf vegna ráðstafana sem tengjast frumvarpi þessu.

Einnig var beðið um gögn varðandi fjármagnsskipan, uppbyggingu og fjárhagslegar sviðsmyndir um eignaumsýslufélagið sem óskað er eftir að koma á fót með heimild í 6. gr. fjárlaga. Fram kom að enn væri mikil óvissa um nær alla lykilþætti í rekstri væntanlegs félags.

Veigamesta óvissan snýr að því hve mikil þátttaka íbúa verður í úrræðinu sem og þátttaka lánveitenda. Einnig ríkir óvissa um það hver nákvæm skuldsetning íbúða í Grindavík er. Frumvarpinu er ætlað að færa þessa óvissu til félagsins í stað þess að hún sé hjá ríkissjóði. Félagið sjálft þarf síðan að vinna áætlanir um það hvort þær eignir sem það kaupir teljist nýtanlegar og hvernig. Ef mikið verður um altjón fæst það bætt úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands, NTÍ, og þá verður minna um útgjöld vegna rekstrar á fasteignum fyrir utan mögulegt niðurrif.

Í greinargerð með frumvarpinu var áætlað að eiginfjárframlag ríkissjóðs gæti orðið um 26 milljarðar kr. en nú er líklegra að það verði nokkru hærra, m.a. sökum þess að í mörgum tilfellum hefur verið óskað eftir endurmati á brunabótamati íbúðarhúsnæðis í Grindavík. Fram hefur komið að nú þegar hafi verið afgreiddar fleiri en 200 umsóknir þess efnis og hefur það leitt til 3 milljarða kr. hækkunar á brunabótamati að meðaltali. Það eitt og sér krefst hærra framlags ríkisins.

Fram kom að unnið væri að samkomulagi um yfirtöku lána við lánastofnanir en það liggur ekki fyrir enn. Gert var ráð fyrir því að auk allt að 12,5 milljarða kr. lántöku úr ríkissjóði fengi félagið sambankalán frá lánveitendum íbúðarhúsnæðisins. Fjárhæð lántöku úr ríkissjóði tengist umfangi óskuldsetts húsnæðis í Grindavíkurbæ. Sú óvissa sem ríkir um skuldsetningu íbúða í Grindavík breytir ekki því markmiði að lánveitendur verði ekki betur settir en ef ekki hefði verið ráðist í valkvæð kaup, en það er ekki heldur markmiðið að staða lánveitenda verði verri en ella. Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur endurmetið nokkrar lykilstærðir frá því að frumvarpið var lagt fram og nú er talið líklegt að umfang efnahagsreiknings félagsins verði um 60 milljarðar kr. miðað við fulla þátttöku íbúðareigenda. Skuldir félagsins gætu orðið um 25 milljarðar kr. og skiptast á milli lántöku frá ríkissjóði og sambankaláns lánveitenda. Eigið fé félagsins verður þá um 35 milljarðar kr. og nær alfarið í eigu ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Niðurstaða meiri hlutans er sú að meiri hlutinn leggur áherslu á að sem allra fyrst liggi fyrir sviðsmyndir og næmnigreining um rekstur félagsins þar sem tekið verði tillit til óvissuþátta, svo sem fjölda þeirra sem vilja selja húsnæði sitt, almenns rekstrarkostnaðar félagsins, umfangs íbúðarhúsnæðis þar sem NTÍ greiðir bætur og áætlaðrar verðþróunar fasteigna. Einnig er lögð áhersla á að viðbótarlánsfjárheimildin verði ekki nýtt nema til þess að fjármagna aðgerðir sem tengjast náttúruhamförum við Grindavík.

Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar á frumvarpinu heldur einvörðungu tæknilegar sem þarfnast ekki frekari skýringa.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. gr. orðist svo:

Eftirtaldar breytingar verða á 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2024:

a. Í stað fjárhæðarinnar „200 ma.kr.“ í 1. tölul. kemur: 230 ma.kr.

b. Á eftir 11. tölul. kemur nýr liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Að endurlána allt að 12,5 ma.kr. til eignaumsýslufélags sem komið verður á fót um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ.

2. Í stað númersins „5.20“ í 2. gr. komi: 5.21.“

Svo mörg voru þau orð í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar vegna frumvarps um fjáraukalög númer tvö á árinu 2024.