154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

717. mál
[18:19]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir Grindvíkinga og mikilvægt að Alþingi bregðist við þeim náttúruhamförum sem hafa orðið í Grindavík og á svæðinu í kring. Það mál sem hér er til umræðu lýtur að því að gefa heimild til að taka allt að 30 milljarða kr. lán, eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til viðbótar við þá lántökuheimild sem þegar er búið að veita og mun vera um 200 milljarðar kr., og einnig heimild til að endurlána allt að 12,5 milljarða til eignaumsýslufélags sem komið verður á fót um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavíkurbæ.

Við í Flokki fólksins vöktum athygli á því í 1. umræðu um þetta frumvarp að hér væri verið að veita heimild til lántöku vegna náttúruhamfara og að þessir 30 milljarðar kæmu inn í íslenskt samfélag á tímum mikillar verðbólgu í samfélaginu, 6,7% verðbólgu, þegar stýrivextir væru 9,25% og Seðlabanki Íslands hefði ekki ákveðið að lækka vexti — vegna hvers? Vegna óvissunnar á Reykjanesi. Ef þessir peningar færu inn í samfélagið myndu þeir auka á verðbólgu, þeir myndu auka á eftirspurn og auka á þenslu. Við vöktum athygli á þessu og sögðum að eðlilegra hefði verið að lækka ríkisútgjöld og hækka bankaskatt, hækka veiðileyfagjald og hækka skatta á breiðu bökin í samfélaginu. Það er a.m.k. mikilvægt að við séum ekki að auka verðbólgu eða gera nokkuð sem stuðlar að aukinni verðbólgu og það er mikilvægt að ríkið fari í mótvægisaðgerðir þegar svona fé fer inn.

Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Til að hægt sé að framkvæma það sem kemur fram í áðurnefndu frumvarpi er þörf á þessum viðbótarheimildum í 5. gr. vegna lántöku og endurlána auk heimildar í 6. gr. vegna stofnunar eignaumsýslufélags og eiginfjárframlags til félagsins til að standa undir þeim skuldbindingum sem því er ætlað.“ — Þetta kemur skýrt fram: „Til að hægt sé að framkvæma það sem kemur fram í áðurnefndu frumvarpi er þörf á þessum viðbótarheimildum í 5. gr. vegna lántöku og endurlána …“

Frumvarpið sem var í gangi áður en þetta frumvarp er lagt fram, frumvarpið sem fór fyrir efnahags- og viðskiptanefnd um kaup á íbúðarhúsnæðinu, leit þannig út við 1. umræðu að þessi peningur væri algerlega nauðsynlegur til að hægt væri að fara í þessi uppkaup. En síðan áttum við góðan fund í fjárlaganefnd um málið milli 1. og 2. umræðu og þá var svolítið annað hljóð í strokknum virðist vera.

Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til fjárlaganefndar, Staða lánsfjármála ríkisins í tengslum við 30 milljarða kr. beiðni í 5. gr. í fjáraukafrumvarpi, segir, með leyfi forseta:

„Enn er óvíst að hversu miklu leyti þörf verði fyrir að nýta viðbótarheimildina og þá hvernig þeirri fjármögnun yrði háttað. Áhersla er lögð á að lán ríkissjóðs í erlendum gjaldmiðlum hafa fyrst og fremst verið tekin til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands eða til að endurfjármagna útistandandi markaðsútgáfur.“

Alþingi Íslendinga veitir hér heimild til lántöku fyrir 30 milljörðum eða ígildi þess í erlendri mynt. Þegar maður les frumvarpið upphaflega þá er þörf á þessum heimildum til að hægt sé að framkvæma það sem kemur fram í áðurnefndu frumvarpi um kaup á íbúðum í Grindavík. En síðan þegar maður fer að skoða dýpra ofan í þetta mál þá er samkvæmt minnisblaði fjármálaráðherra og samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu enn óvíst hvort við þurfum að nota þessa 30 milljarða heimild. Vissulega er gott að hafa hana, það er alltaf gott að hafa lánsfjárheimild upp á 30 milljarða upp á vasann, ég tala nú ekki um þegar verið er að fara í uppkaup, en enn þá er óvíst að hversu mikið miklu leyti þörf verður fyrir að nýta viðbótarheimildina. Það er óvíst hvort það þurfi að nota hana vegna þess að ríkissjóður er með 200 milljarða kr. lántökuheimild fyrir. Hann gæti líka farið í sparnaðaraðgerðir og auðvitað líka í skattahækkanir; hækkað bankaskatt, veiðileyfagjald og hækkað skatta á ríkasta hluta þessa samfélags til að fjármagna þetta.

En hvað um það, má ég ekki benda á að þegar við samþykktum frumvarp hér á Alþingi Íslendinga um að byggja varnargarða við Svartsengi og Bláa lónið var það frumvarp keyrt í gegn á einum degi, frá klukkan hálftvö til kllukkan ellefu um kvöldið? Og það var skattheimta á íslenskt samfélag. Í 4. gr. þess frumvarps var lagt viðbótarfasteignagjald á íbúa þessa lands til að borga fyrir þá framkvæmd upp á 2,5–3 milljarða. Við mótmæltum þessu og færðum góð rök fyrir því. Í fyrsta lagi var mikið í hinum almenna varasjóði, 3,8 milljarðar, sem hefði þurft að grípa til. Nei, það átti frekar að skattleggja almenning. Svo kom hæstv. hæstv. fjármálaráðherra hér í 1. umræðu um þetta frumvarp og sagði að hún væri algjörlega á móti skattahækkunum, það væri eitthvað sem væri algjört bannorð, eftir að hafa keyrt í gegn frumvarp fyrr í haust, fyrstu löggjöfina sem var vegna viðbragða vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi.

Við í Flokki fólksins styðjum Grindvíkinga í þeim raunum sem þeir standa nú í, að hafa ekki verið á heimilum sínum frá því um miðjan nóvember, en það er fjármögnunin sem skiptir máli hér. Það skiptir máli að við rjúkum ekki til og dælum 30 milljörðum í íslenskt samfélag og að rétt sé að þessu staðið vegna áhrif á verðbólgu. Við verðum að ná niður verðbólgunni. Við verðum að gera það. Við verðum að ná stýrivöxtunum niður. Það verður bara að gerast. Það er allt frosið hérna með þessa stýrivexti og þetta gríðarlega háa vaxtastig sem er algerlega gjörsamlega galið. Og það eru heimilin í landinu sem eru að borga hundruð þúsunda, við getum kallað það skatt, vegna verðbólgunnar og þessara fáránlega háu stýrivaxta. Meira að segja sjálfur seðlabankastjóri hefur hvatt fólk til að fara í verðtryggð lán til að losna undan þeim.

Það breytir því ekki að við erum loksins komin með betri upplýsingar. Það sem fram kemur í frumvarpinu upphaflega var að til að hægt væri að framkvæma þetta þá þyrfti þessa lánsfjárheimild. En svo kemur minnisblað frá fjármálaráðuneytinu: Það er enn óvíst hvort þessi lánsfjárheimild verði notuð. — Og við skulum vona að hún verður ekki notuð í framtíðinni.

Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er mikil óvissa um nær alla lykilþætti í rekstri hins væntanlega eignaumsýslufélags. Enn ríkir óvissa um hver nákvæm skuldsetning íbúða í Grindavík er. Frumvarpinu er ætlað að færa óvissuna til félagsins í stað þess að hún sé á ríkissjóði. Ég er algerlega sammála því að við eigum að færa óvissuna og áhættuna frá Grindvíkingum til samfélagsins, til ríkissjóðs, þá óvissu sem Grindvíkingar búa við varðandi húsnæði sitt og þær fjárhagslegu skuldbindingar sem þeir eiga í húsnæði sínu og lánum þar, það á að færa þá óvissu á ríkissjóð. Samfélagið á að geta tekið þá óvissu og stutt Grindvíkinga með þeim hætti á meðan þeir geta ekki búið í bænum sínum. Svo einfalt er það. En það er spurning hvernig það er fjármagnað, eins og hér hefur komið fram, en það er rökrétt að gera það á þessum tímum.

Ég get tekið dæmi: Fyrir 50 árum þegar Heimaeyjargosið varð þá var 5.000 manna bæjarfélag sem þurfti að flýja Heimaey. Þá var um tíma, í marga mánuði, sem íbúar gátu ekki farið til baka. Í dag erum við sennilega fimm eða sex sinnum ríkara samfélag en þá þannig að við getum auðveldlega stutt við bakið á Grindvíkingum í þeim raunum sem þeir eru að fara í gegnum, að geta ekki búið í bænum sínum. En það breytir því ekki að við þurfum að gera það með réttum hætti og það þarf að standa vel að málum.

Það er líka óvissa um skuldsetningu íbúðanna í Grindavík en það breytir ekki markmiðinu um að ætla að yfirtaka þær. Eins og ég skil þetta á að breyta húsnæðisskuldum íbúa í Grindavík yfir í sambankalán sem ríkið mun yfirtaka. Við getum kallað það eins konar skuldavafning. Lánin verða öll tekin saman og þeim verður breytt í sambankalán og ríkið mun greiða um leið og þeir kaupa eignirnar. Þá er spurningin hversu hátt skuldahlutfallið er og þá er spurning hversu mikið þarf að greiða fyrir hverja eign, þ.e. yfirtöku á skuldum og kaup á þeim hluta sem er eigið fé íbúans. Það er því vissulega óvissa.

Ég vona eindregið að ríkissjóður Íslands geti staðið undir þessu án þess að þurfa að taka lán í erlendri mynt. Hvað varðar 30 milljarða vona ég að þeir getið farið í fjárheimildir sem þegar eru til staðar og hagrætt í rekstri. Mér skilst að þeir ætli því miður ekki að hækka bankaskatt eða veiðileyfagjald eða aðra skatta til þess að fjármagna þetta. Vonandi nýta þeir þá þessa 200 milljarða heimild sem þeir fengu upphaflega fyrir árið í ár til að fjármagna það. Mér fannst upphafleg framsetning á frumvarpinu til fjáraukalaga þess eðlis að það lá í augum uppi að það yrði að nota þessa 30 milljarða en það er óvíst í dag eftir betri upplýsingar í fjárlaganefnd og þetta minnisblað sem við fengum.

Það er vert að minna líka á það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði við 1. umræðu, að hún væri á móti sköttum. Ef ríkissjóður þarf að nýta þessa fjárheimild upp á 30 milljarða er alveg deginum ljósara að þetta lán verður borgað með skattheimtu, það verður borgað með skattfé. Íslenski ríkissjóðurinn er ekki að fara að vinna í lotteríi eða einhver annar aðili að greiða þetta. Það verða skattborgarar þessa samfélags sem greiða þetta lán með vöxtum og vaxtavöxtum í framtíðinni. Þess vegna er mikilvægt að við förum ekki út í stórkostlegar lántökur til að styðja við bakið á Grindvíkingum í þessu máli. Þar fyrir utan mun það auka eftirspurn og koma í veg fyrir að vextir í landinu lækki og við náum tökum á verðbólgu sem við verðum að gera. Við verðum að ná tökum á verðbólgunni. Það er algjört grundvallaratriði. Það er ekki nægjanlegt að Seðlabanki Íslands sé einn að standa í því og á meðan sé íslenska ríkið að fá aukna lánsheimildir hjá Alþingi Íslendinga til að dæla milljörðum út í samfélagið.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um útgjaldavanda ríkissjóðs. Ég held það sé líka tekjuvandi en það breytir því ekki að þetta eru útgjöld sem við erum að tala um hér sem íslenska ríkið er að fara út í. Ég tel að það verði mikil völd sem verða færð inn í þetta eignaumsýslufélag sem hefur heimild til að kaupa og ráðstafa og sjá um þessar eignir sem munu vera í höndum ríkissjóðs í a.m.k. þrjú ár. Grindvíkingar hafa forgangsrétt að þeim eignum vilji þeir fara aftur í bæinn sinn og ef það eru tök á því.

Það er mikilvægt að við höfum fengið þetta minnisblað sem skýrir enn frekar að það er óvíst að hversu miklu leyti væri þörf á að nýta þessa heimild en í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram tel ég ekki óeðlilegt að við styðjum það að veita þessa heimild af því að Flokkur fólksins stendur heils hugar á bak við Grindvíkinga og allur þingheimur held ég líka.