131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[16:10]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er um margt merkileg umræða og að sumu leyti fagna ég ræðu hv. þingmanns sem hér talaði, hv. formanns iðnaðarnefndar. Ég verð samt að viðurkenna að ég á dálítið bágt með að skilja í ljósi nýsamþykktra laga um fyrirkomulag raforkumála að þá komi fram hjá hv. þingmanni að margra ára umræða sé fram undan. Það segir mér það eitt að í Framsóknarflokknum voru þessi mál ekki kláruð áður en þau voru samþykkt frá Alþingi frekar en mörg önnur frumvörp.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra boðar hér einkavæðingu Landsvirkjunar skyldi maður ætla að það væri a.m.k. gert í umboði ríkisstjórnar. Þar á Framsóknarflokkurinn, þingflokkurinn sem er nú ekki mjög stór, ekki fjölmennur þingflokkur, býsna marga fulltrúa. Því mætti ætla að það hefði verið rætt innan þingflokks Framsóknarflokksins, að hv. þingmenn þar hefðu rætt að svona ætti að standa að málum.

Það gleður mig hins vegar að hv. þingmaður segir að hann hafi verulegar efasemdir um þessa boðuðu einkavæðingu Landsvirkjunar. Þetta er auðvitað einkavæðing í þágu fákeppni og einokunar, ekki samkeppni og alls ekki í þágu fólksins í landinu.

Ég spyr hv. þingmann: Er alveg klárt að í þessu máli sé hæstv. ráðherra ekki að túlka skoðun Framsóknarflokksins? Er þetta aðeins fjölmiðlafár og athyglissýki?