145. löggjafarþing — 78. fundur,  18. feb. 2016.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2014.

417. mál
[12:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég veit nú ekki alltaf hvort maður á að fara í sérstaka ræðu eða veita andsvar því að ég ætla ekki að mótmæla neinu sem hér hefur komið fram. Ég held ég hafi nú samt gert það árlega síðan ég kom á þing að hrósa embætti umboðsmanns Alþingis og ég vil ekki láta hjá líða að gera það líka núna.

Fram kemur að það skapi vandræði í stjórnsýslunni að fólk tali ekki Norðurlandamálin. Kannski þarf fólk ekki að tala Norðurlandamálin en það er náttúrlega mjög gott að fólk sé læst á þau mál. Ég velti fyrir mér hvort það sé nú að koma fram í stjórnsýslunni að byrjað var að þýða Andrésblöðin yfir á íslensku, því að ég held að við hv. þingmaður höfum bæði orðið lesfær á dönsku með því að lesa Andrésblöðin í gamla daga. En það er annað mál. Þarf þá ekki að huga að því að settur verði upp einhver góður skóli innan stjórnsýslunnar? Bæði er talað um þessi erlendu tungumál og um starfsmannamálin. Ég minnist þess að umboðsmaður hefur áður talið að opinberir starfsmenn þekki ekki — og til dæmis stjórnsýslulögin, hann hefur oft talað um þau. Hann talaði þó ekki sérstaklega um það núna.

Ég velti fyrir mér: Væri það eitthvað sem ráða mætti bót á í stað þess að vera endalaust að tala um að þetta séu vandræði? Ætti að gera það beinlínis að skyldu að opinberir starfsmenn sæki námskeið fyrstu þrjá mánuði í starfi? Ættum við að leggja það til?