151. löggjafarþing — 78. fundur,  14. apr. 2021.

skipulagslög.

275. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, um uppbyggingu innviða og íbúðarhúsnæðis. Mál þetta er tvískipt. Ég ætla aðeins að koma að seinni hlutanum fyrst, en hann snýr að frestun varðandi það hvenær hægt er að víkja frá meginreglu um sex vikna lágmarksfrest til að veita umsögn um tillögu að breytingum á deiliskipulagi sem varðar einvörðungu uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Það er seinni hlutinn sem er hér en ég ætla að koma aðeins betur inn á fyrri hlutann í upphafi máls míns sem snýr að uppbyggingu innviða, þ.e. raflínumálum. Það er ágætt að rekja það, svo að við höfum það öll í huga, af hverju farið er í þessa breytingu. Þetta kemur frá óveðursnefndinni svokölluðu og er átt við óveðrið — og nú er ég ekki barnanna bestur í tímasetningu, forseti, sem var hér væntanlega (Gripið fram í: 2019.) jólin 2019. Ég þakka hv. þingmönnum veitta leiðsögn og aðstoð, þeir þekkja þessa meinbugi í skilningi mínum á línulegum tíma, ég þakka pent fyrir. Það óveður varð til þess að íbúar stórra landsvæða bjuggu við það ástand, sem er einfaldlega ekki í lagi, að vera rafmagnslausir dögum saman og í ískulda þannig að býsna ljóst varð að grípa þyrfti til aðgerða. Skipuð var þessi samráðsnefnd sem fór yfir það en í henni sátu fulltrúar ráðuneyta og hagsmunaaðila auk Sambands íslenskra sveitarfélaga, en niðurstaða þeirrar nefndar var að leggja til ýmsar breytingar á lögum, þar með talið þessa. Þessi tillaga hefur í daglegu tali verið nefnd raflínunefnd og snýr að því að þegar raflínur liggja yfir sveitarfélög verði gerðar þær breytingar á skipulagslögum að raflínunefnd taki ákvörðun um slíkar framkvæmdir þvert á sveitarfélög sem verði nokkurs konar yfirhattur yfir sveitarfélög.

Forseti. Eðlilega vakti þetta upp og vekur enn umræður um skipulagsvald sveitarfélaga. Fátt hefur verið meira rætt undanfarið, þó að það hafi kannski ekki alltaf farið hátt, í ólíklegustu málum og úr ýmsum áttum en einmitt skipulagsvald sveitarfélaga. Það hefur verið dálítið merkilegt að fylgjast með því að þar hafa fylkingar oft skipt um stað á vígvellinum, þ.e. þau sem í einu máli halda skipulagsvaldi sveitarfélaga hátt á lofti, að það verði að verja umfram allt annað, eru í öðru máli ekki með eins miklar áhyggjur af því. Ég nefni þetta mál því að auðvitað komu upp athugasemdir um að hér væri jafnvel verið að ganga á skipulagsvald sveitarfélaganna. Ég minni aftur á að Samband íslenskra sveitarfélaga tók þátt í þessum undirbúningshópi. Ég nefni hálendisþjóðgarð þar sem mikið hefur verið rætt um að verið sé að ganga á skipulagsvald sveitarfélaga. Eins og ég nefndi áðan er kannski fólk sem telur að ekki sé verið að ganga á skipulagsvaldið hér hart á því að verið sé að gera það í hálendisþjóðgarðinum og öfugt, fólk sem talar um að hér sé verið að ganga á skipulagsvaldið telur kannski að ekki sé verið að gera það í hálendisþjóðgarðsmálinu. Ég nefni þetta, herra forseti, til að draga það fram að skoðanir um þetta mál eru ólíkar og athugasemdir um þetta bárust til nefndarinnar, sérstaklega frá Reykjavíkurborg í gegnum fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Svo að ég reki örstutt meginefni frumvarpsins, eins og ég gerði áðan, er lagt til að lágmarksathugasemdafrestur við auglýsingar aðal- og deiliskipulagstillagna sem varða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, og ekki eru háðar mati á umhverfisáhrifum, verði styttur úr sex vikum í fjórar og svo nýmæli um landfræðilega gagna- og samráðsgátt sem starfrækt verði af Skipulagsstofnun.

Hvað varðar raflínunefnd þá komu þau sjónarmið fram að fyrirkomulagið sem lagt er til í frumvarpinu með raflínunefnd vegi að skipulags- og sjálfsákvörðunarvaldi sveitarfélaga og skapi með því óásættanlegt fordæmi um takmörkun á þeim rétti sveitarfélaga. Þá var ekki ljóst að þetta fyrirkomulag myndi leysa nokkurn vanda. Ljóst er að frumvarpið felur í sér frávik frá meginreglum skipulagslaga um að sveitarfélög fari með skipulagsvaldið. Öll slík frávik ber að túlka afar þröngt. Meiri hlutinn bendir á að nú þegar setji ýmis lög takmarkanir á heimildir sveitarfélaga til ákvarðanatöku um landnotkun við skipulagsgerð eins og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins. Það er kannski, forseti, ágætt að hafa það í huga að nú þegar eru ýmsar áætlanir, ýmsar samþykktir, sem við gerum hér, og ekki er hægt að horfa fram hjá því að það setur skipulagsvaldi sveitarfélaga ákveðin takmörk. Ég nefni kerfisáætlun Landsnets sem gott dæmi um þetta, og það er ýmislegt fleira í því.

Meiri hlutinn áréttar að ákvæði frumvarpsins eru skýrt afmörkuð að efni, þ.e. þau taka einungis til lagningar raflína í flutningskerfi raforku. Ákvæðin ná ekki til annarra innviða eins og samgönguframkvæmda. Er það mat meiri hlutans að þær skapi ekki fordæmi varðandi frekari takmörkun á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Ég ætla, forseti, einfaldlega að nefna fílinn í stofunni því að hér er sérstaklega talað um þann vilja meiri hluta nefndarinnar, sem kemur líka skýrt fram í máli ráðherra málaflokksins, að þetta eigi eingöngu við um raflínur í flutningskerfi raforku. Þetta á ekki við um samgönguframkvæmdir, þetta á ekki við um flugvöllinn í Reykjavík, svo að dæmi sé tekið, því að í ofanálag við það dæmi sem ég nefndi hér áðan, um umræður um skipulagsvald sveitarfélaga, þarf náttúrlega að horfa til þess að reglulega koma fram frumvörp hér á Alþingi um að ganga á skipulagsvald Reykjavíkurborgar varðandi það landsvæði sem nú er helgað flugvelli. Þess vegna skil ég vel að fulltrúar Reykjavíkurborgar hafi varann á sér þegar að öllum svona málum kemur. Einmitt þess vegna, í góðu samráði og samtölum í nefndinni, kveðum við svona sterkt að orði í álitinu.

Framkvæmdir við meginflutningskerfi raforku eru sérstaks eðlis, liggja yfir mörk nokkurra sveitarfélaga og eru ólíkar ýmsum öðrum samfélagslegum innviðum, sem að mati meiri hlutans réttlæta að umfjöllun um skipulagsbreytingar og framkvæmdaleyfi hljóti sérstaka málsmeðferð. Líkt og rakið er í greinargerð með frumvarpinu kom fram við athugun starfshóps sem skipaður var vegna fárviðrisins í desember 2019 að töluverðar tafir hafi orðið síðustu ár í undirbúningsferli framkvæmda við flutningskerfi raforku og þá sérstaklega við meginflutningskerfið sem er á ábyrgð Landsnets. Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt með hliðsjón af markvissri atvinnu- og byggðaþróun og þar með brýnt að einfalda og flýta ferli ákvörðunartöku um lagningu raflína, og hlíta þá niðurstöðu þess starfshóps sem skipaður var, og ég kom hér inn á áðan sem fór yfir stöðuna eftir óveðrið — óveðursnefndin eins og hún hefur verið kölluð.

Forseti. Ég ætla að láta þetta duga um skipulagsvaldið og þau ákvæði og raflínunefndina svona mestan part. Hvað varðar athugasemdafrest við breytingar á deiliskipulagi íbúðarhúsnæðis er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að víkja frá meginreglunni um sex vikna lágmarksfrest til að veita umsögn um tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem varðar einvörðungu uppbyggingu á íbúðarhúsnæði. Sveitarstjórn geti að ákveðnum skilyrðum uppfylltum ákveðið að fresturinn verði að lágmarki fjórar vikur. Það er skemmst frá því að segja að það voru skiptar skoðanir meðal umsagnaraðila um þetta ákvæði frumvarpsins og þau sjónarmið komu vissulega fram að heimildin gengi ekki nægilega langt og ætti að stefna að því að stytta málsmeðferðartíma allra skipulagstillagna. Hins vegar komu andstæðu sjónarmiðin fram, að óæskilegt væri að hrófla við umsagnarfresti þar sem slíkt fæli í sér skerðingu á aðkomu almennings að skipulagsferlinu. Að mati meiri hlutans er hér farið bil beggja og telur meiri hlutinn ráðlegt að miða breytinguna að sinni einvörðungu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. En við beinum því til ráðuneytisins að fara heildstætt yfir kynningar og samningskröfur skipulagslaga með það að markmiði að tryggja skilvirka stjórnsýslu en um leið gæta að rétti almennings til að taka þátt í skipulagsbreytingum í sínu nærumhverfi.

Ég ætla, forseti, að leyfa mér aðeins að tala aftur um önnur mál en þau sem hér eru undir. Ég hef einmitt líka upplifað það á síðustu mánuðum og misserum að fólk sem hefur sterkar skoðanir á umsagnarfresti skiptir oft um skoðun eftir því hvað er undir. Þetta hef ég upplifað í vinnu minni við að leiða starfshóp um endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Ég er þeirrar skoðunar, og ég fagna því mjög að það hafi leitað inn í nefndarálitið, að við þurfum einfaldlega að setjast yfir þetta heildstætt, við þurfum að sjá hvaða frestir það eru sem eru í gildi í stjórnkerfinu svo að þau sem að málum koma þurfi ekki að velkjast í vafa um að ef þetta er svona mál sé fresturinn átta vikur, ef þetta er svona mál sé hann sex vikur og svo fjórar í enn öðru tilviki. Það þarf einfaldlega meiri samræmingu.

Að lokum, forseti, er mælt fyrir um nýja landfræðilega gagna- og samráðsgátt á vegum Skipulagsstofnunar. Það er jákvætt skref á þeirri vegferð að einfalda aðgengi hagsmunaaðila að gildandi skipulagsáætlun og málsmeðferð nýrra skipulags- og framkvæmdamála. Umsagnaraðilar lýstu allir ánægju sinni með tilkomu gáttarinnar, hvöttu raunar til þess að hún yrði tekin í notkun sem fyrst. Þó þyrfti að gæta þess að hún yrði sniðin að þörfum og verklagi sveitarfélaga jafnt sem Skipulagsstofnunar og bent var á hnökra sem orðið hefðu við innleiðingu nýrrar byggingargáttar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og við í meiri hlutanum tökum heils hugar undir þessi sjónarmið.

Í þessu samhengi vil ég aftur nefna endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum því að þau hverfast að miklu leyti um svipaða hugmynd, þ.e. gagnagátt þar sem allir aðilar máls geti nálgast öll gögn er málið varða hverju sinni. Aðgangur að gögnum er eitt af lykilatriðunum í Árósarsáttmálanum sem tryggir rétt almennings til upplýsinga og þess vegna fögnum við þessu mjög, þessum tilslökunum eða umbótum í þá átt að opna fyrir aðgang í gegnum gátt. Meiri hlutinn leggur fram breytingartillögur og vísun til kerfisáætlana um uppbyggingu raforkukerfisin; ég kom aðeins inn á kerfisáætlun áðan.

Bent var á að samkvæmt raforkulögum, nr. 65/2003, væri kerfisáætlun háð samþykki en ekki staðfestingu Orkustofnunar. Þá hefði hugtakið staðfesting tiltekna merkingu í skipulagslögum og færi betur á því að samræma orðalagið að þessu leyti raforkulögum. Meiri hlutinn tekur undir það og leggur til breytingu þess efnis að vísað sé til samþykktrar kerfisáætlunar í stað staðfestrar í 1., 2. og 7. gr. frumvarpsins.

Afgreiðsla raflínuskipulags: Í 1. mgr. d-liðar 7. gr. er kveðið á um að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli raflínunefnd fjalla um tillögu að raflínuskipulagi á nýjan leik og taka afstöðu til umsóknar um framkvæmdaleyfi. Bent var á að á þessu stigi í ferlinu liggur hvorki fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi né tímabært að taka afstöðu til leyfisumsóknar. Það sé gert þegar raflínuskipulag hafi tekið gildi með staðfestingu ráðherra og birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Með vísan til þess leggur meiri hlutinn til að orðin „umsóknar um framkvæmdaleyfi, þ.m.t.“ falli brott úr ákvæðinu.

Að lokum, forseti, um kostnað við gerð raflínuskipulags og eftirlit með framkvæmdum: Í 4. og 13. gr. er kveðið á um að kostnaður við gerð raflínuskipulags og eftirlit með framkvæmdum skuli greiddur af framkvæmdaraðila. Fram kom að ósamræmi er milli þess og ákvæðis 14. gr. þar sem fram kemur að raflínunefnd sé heimilt að innheimta kostnað vegna skipulagsvinnu nefndarinnar af framkvæmdaraðila. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 14. gr. þannig að samræmi verði milli þessara ákvæða, þ.e. að raflínunefnd innheimti kostnaðinn.

Þá eru lagðar til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, og ég hef að nokkru leyti gert grein fyrir hér.

Undir þetta rita, auk mín, sem er framsögumaður, hv. þingmenn Bergþór Ólason, Ari Trausti Guðmundsson, Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara, Jón Gunnarsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.