133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:16]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom hér upp og hélt ræðu til að varpa fram spurningum til mín þar sem hann spurði efnislega að því hvort ég teldi að grundvöllur hlerana á þessum árum hefði verið fullnægjandi og lögum samkvæmur. Hv. þingmaður setur mig í töluverða klemmu hvað þetta atriði varðar vegna þess að ég var ekki dómari á þeim tíma og heimilaði ekki hleranirnar. Ég er því ekki í nokkurri aðstöðu til að meta það hvort grundvöllur þeirra heimilda hafi verið til staðar eða ekki, enda þekki ég ekki gögn málsins. Ég leyfi mér hins vegar að ganga út frá því að á umræddum árum hafi réttarkerfi okkar verið orðið það þroskað að þrískipting ríkisvaldsins hafi verið virt og dómarar þess tíma hafi á grundvelli þeirra laga sem þá giltu kveðið upp úrskurði sína. Ég leyfi mér að gera ráð fyrir því að lögin eins og þau voru þá, væntanlega lög um meðferð opinberra mála, hafi kveðið á um að heimilt væri að hlera síma hjá einstaklingum við tilteknar aðstæður og þeir hafi á þeim tíma metið það svo að þær aðstæður heimiluðu hleranir í þeim tilvikum. Viðhorf manna til þess hvort virða eigi friðhelgi einkalífs hafa lítið breyst frá þeim tíma. Ákvæði um friðhelgi einkalífs hygg ég að hafi verið innan mannréttindakafla stjórnarskrárinnar á þessum tíma og þau hafi verið skýr og hin sömu og þau eru nú. Ég geng því út frá að grundvöllur þeirra úrskurða hafi verið traustur.