141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru fjölmörg atriði sem áhugavert væri að ræða við hæstv. ráðherra. Ég vona að hann verði við umræðuna svo að hægt verði að taka hana, ekki er hægt að ná því öllu á mínútu.

Þegar málið kom til umfjöllunar í upphafi, í september, lýsti ráðherra því yfir að hann hygðist ekki standa við þá samninga sem voru gerðir við lok þings síðasta vor og fara í einu og öllu eftir svokölluðum trúnaðarmannahópi. Það voru greinilega orð að sönnu því að hér er ýmislegt sem gengur aftur sem menn voru þó búnir að koma sér saman um að ætti ekki hér heima. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hverju það sæti. Hvort rétt sé að taka þann slag aftur, hvort þingmenn úr stjórnarflokkunum sem voru aðilar að því séu búnir að skipta um skoðun og líklegra sé að þetta fari í gegn.

Mig langar að (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra: Hann lýsti því einnig yfir að málið þyrfti að koma hingað inn í lok október, síðan í lok nóvember ef einhver von ætti að vera til þess að klára málið. Hverjar eru væntingar hans til þess að klára það og þá með hvaða hætti á þeim 15 þingdögum (Forseti hringir.) sem eftir standa af þinginu?