131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:31]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur verið um þetta mál. Ég hef á hverju þingi svarað fyrirspurnum um málefni Ljósheima og við höldum því áfram. Nú er svo gott að málið er komið af stað og allar okkar áætlanir eru miðaðar við þá dagsetningu að koma húsinu í rekstur í febrúar 2007.

Eitt af því sem m.a. tafði þetta mál var að við vorum að setja niður áætlun um hvað við gætum gert næstu 3–4 árin. Við höfum reiknað með þessu verkefni inn í áætlanir okkar, að leggja í þetta þær 815 millj. sem ég gat um í svari mínu. Það er ætlun okkar að gera það.

Varðandi svo aftur frekari framkvæmdir hef ég ekki heyrt þær hugmyndir fyrr en núna fyrir tveimur eða þremur dögum. Við erum tilbúin í ráðuneytinu að ræða allar slíkar hugmyndir þó að ég sé ekki á þessu stigi tilbúinn til að kveða upp úr með hvort þetta sé rétt eða skynsamlegt. Ég þarf að láta skoða það betur en við erum að sjálfsögðu tilbúin til að fara yfir þær hugmyndir sem þarna eru um byggingu dvalarrýmis.

Það er alveg rétt að aðstaðan á Selfossi hefur ekki verið góð, í Ljósheimum, og þess vegna erum við komin með þetta verkefni í gang eftir mikla baráttu. Ég tek undir það að starfsfólk á því heimili hefur unnið afbragðsstarf eins og er sem betur fer reglan víðast hvar um landið.