136. löggjafarþing — 79. fundur,  11. feb. 2009.

útflutningur hvalafurða.

284. mál
[14:45]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Með þessari fyrirspurn er greinilega verið að reyna að draga í efa hagkvæmni veiðanna og verðmæti afurðanna. Þó liggur fyrir að um nokkuð hátt afurðaverð er að ræða. Það sást strax á tilraunaveiðunum sem voru stundaðar hér í atvinnuskyni 2006 og voru fyrst og fremst settar í gang til að reyna markaðinn sem fyrir hendi er, og sem þeir sem stunda veiðarnar halda fram að sé fyrir hendi, og hvert verðmæti afurðanna er.

Ljóst er að við þær hvalveiðar sem fyrirhugaðar eru samkvæmt gildandi reglugerð munu skapast á þriðja hundrað störf í sumar. Þegar núverandi sjávarútvegsráðherra leyfir að þær fari í gang skapast störf við uppbyggingu (Forseti hringir.) og viðhald þeirra tækja sem á að nota við veiðarnar þannig að um þetta þarf ekki að deila. Þetta liggur fyrir. (Forseti hringir.) Ekkert annað er að gera en að leyfa mönnum að fara í gang með þessa atvinnusköpun.