150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Hið daglega amstur er öðruvísi í dag en það var í gær. Jafn einföld athöfn og að fara í búðina er allt öðruvísi og fólk veit ekki alveg hvað það á að gera við jafn mikilvægar hefðir og afmælisveislur og jarðarfarir. Hvað gerist um næstu mánaðamót er stærri spurning en venjulega fyrir gríðarlega marga landsmenn og sú spurning er alla jafna ansi stór. Í dag afgreiðum við nokkur frumvörp sem eiga að hjálpa til við að svara spurningum. Þau eru ekki endanleg svör og ekki fullkomin svör en þannig eru svör mjög oft, sérstaklega þegar aðstæður eru erfiðar og erfitt að spá um hvað gerist á allra næstu dögum. Væri hægt að gefa betri svör? Já, auðvitað. En getum við gefið betri svör? Nei, ekki núna.

Höfum í huga að allir eru að reyna að gera sitt besta, ríkisstjórn og þing. Kennarar taka á sig gríðarlegt álag til að sinna menntun barna okkar í þessu ástandi. Fjölskyldur eru í gríðarlegu dagskrárpúsluspili þar sem það er næstum full vinna að fylgjast með öllum tilkynningum um skipulag skóla og vinnu. Ég treysti mér ekki til að reyna að útskýra hvað heilbrigðisstarfsfólk er að afreka, ég er ekki nægilega góður í því að fara með orð til að segja frá því á nægilega sanngjarnan hátt. En það sem ég get sagt er að það getur enginn unnið starf þess betur. Það sem ég get hins vegar sagt og vísað í almennar sögulegar heimildir er: Þetta reddast. Á þingi er venjulegt fólk sem á börn og fjölskyldur, eins og allir aðrir. Starf okkar er að taka ákvarðanir byggðar á sannfæringu okkar. Við getum ekki gert það allt en við getum gert ansi mikið. Við getum ekki sinnt verkefnum heilbrigðisstarfsfólks en við eigum að geta passað upp á að heilbrigðisstarfsfólk sé til staðar.

Kæru þingmenn. Gerum okkar besta og það sem við getum til að þetta reddist.