150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:13]
Horfa

Frsm. velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi framkvæmd þessa máls er Vinnumálastofnun búin að vera að búa sig undir þetta. Nefndin ræddi um akkúrat þessa hluti þegar Vinnumálastofnun kom til fundar við hana og ég myndi segja að hún hefði verið frekar brött. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að þurfa að fjölga starfsmönnum og hún er að virkja það net allt í kringum landið. Við þekkjum starfsstöðina á Skagaströnd, þar væri hægt að bæta við strax og hér fyrir sunnan og virkja jafnvel fleiri starfsstöðvar. Ég skildi Vinnumálastofnun þannig að hún gengi brött til verka í þessum málum, vissi að fjöldinn yrði mikill sem og álagið. Vinnumálastofnun ætlar að einfalda enn frekar aðgengi að sínu rafræna kerfi til að sækja um og mæta fólki sem hefði ekki tök á að gera það og einfalda mjög viðmótið hjá þeim notendum og hafa ekki mörg flækjustig þegar sótt er um á vef Vinnumálastofnunar. Kannski finnst mörgum fullmikið fyrir. Ég held að við getum verið bjartsýn á að þar muni allir leggja sig mjög fram um að þetta gangi snurðulaust fyrir sig því að þess vegna geta 20.000–30.000 sótt um til að nýta þetta úrræði.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af fólki sem hugsanlega er að detta út af atvinnuleysisbótum og tel að við sem samfélag munum gera það sama og gert var þegar efnahagshrunið varð, að grípa það fólk og mæta því ef þörf krefur.