135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:30]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við afgreiddum í gær, að ég held, frumvarp til laga um aðstoðarmenn þingmanna. Þar er gert ráð fyrir að landsbyggðarþingmenn hafi aðstoðarmenn. Nú kemur í ljós að hv. þm. Ögmundur Jónasson er með aðstoðarmenn, heila skrifstofu sem er BSRB. Mig langar til að spyrja hann hvort hann geti útvegað öðrum þingmönnum skýrsluna sem aðstoðarmenn hans hafa unnið fyrir hann og hann notar í þessum málflutningi.

Varðandi það að bæta kjör þeirra sem verst eru staddir þá hefur það löngum verið baráttumál mitt að hækka greiðslur úr lífeyrissjóði eða tryggja fólki ákveðið lágmark úr lífeyrissjóði. Það hefur komið í ljós, þegar menn skoða stöðu aldraðra sérstaklega, að þeir eru verst settir sem ekki greiddu í lífeyrissjóð af ýmsum ástæðum, í fyrsta lagi fatlaðir, í öðru lagi konur, aldraðar sem núna eru orðnar 80–90 ára gamlar, sem voru heimavinnandi og voru aldrei á vinnumarkaði. Eins er um þá sem voru á vinnumarkaði og greiddu ekki í lífeyrissjóð þó þeir ættu að gera það. Það voru fleiri tugþúsund manna. Ég vissi það þegar ég var formaður Landssambands lífeyrissjóða að 40 þús. manns áttu að borga í lífeyrissjóð en gerðu það ekki.

Þetta fólk er illa statt í dag, með engin réttindi úr lífeyrissjóði. Þess vegna datt okkur í hug að leysa vanda þessa fólks með því að tryggja fólki lágmark úr lífeyrissjóði. Það var aldrei talað um annað en að þetta mundi skerða bætur frá Tryggingastofnun. Það var aldrei talað um annað en þetta yrði skattlagt. En ég vil fullvissa hv. þingmann um það að maður sem er með 130 þús. kr. á mánuði, lágmark frá Tryggingastofnun, munar um 8 þús. kr. Hann munar um það að fara upp í 143 þús. kr. úr 131 þús. kr. að lágmarki. Hann munar mikið um það. Þá eru þessar bætur, 143 þús. kr., eftir að 25 þús. kr. kæmu, algert lágmark sem einhleypur ellilífeyrisþegi fær á Íslandi.