141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[15:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg klárt í mínum huga að þetta frumvarp mun ekki auka nýliðun í sjávarútvegi. Það getur vel verið að menn hafi hugmyndir um að það eigi að gera það en það mun ekki gera það að mínu mati.

Allt sem snýr að óvissu í sjávarútvegi er verst fyrir smæstu og millistóru fyrirtækin af því að þau eru veikust. Við vitum það auðvitað að stærstu, sterkustu fyrirtækin munu alltaf lifa af. Þetta er bara eins og með dýrin í skóginum.

Ég get sagt það við hv. þingmann þar sem ég kem úr sjávarplássi og hitti marga sem starfa í útgerð og vinnslu og öllu að þar eru allir komnir að fótum fram. Ég hræðist mjög mikið og hef sagt það hér áður að komi þannig ástand að menn komist út úr greininni þá munu þeir fara. Mér hefur fundist eins og það sé alltaf verið að hrekja menn út í óvissu og þeir sem eru smæstir vilja komast út úr henni. Það er ekkert verra en óvissan, alveg sama hvort það á við þetta, hvort maður er veikur eða hvað það er, það sem fer verst í fólk yfir höfuð er óvissa.