145. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2016.

lagaskrifstofa Alþingis.

30. mál
[16:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast ekki við það að telja að frumvarp stjórnlagaráðs sé orðið að stjórnarskrá, en hins vegar aðhyllist ég nýja stjórnarskrá og finn mikið af mjög góðum hugmyndum í frumvarpi stjórnlagaráðs, þar á meðal er Lögrétta, það er á þeim forsendum sem ég nefni það.

Hvað varðar Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis þá eru það einmitt dæmi um stofnanir sem hafa ekki bindandi áhrif, álit þeirra hefur ekki lögformleg áhrif á lagasetningu sem slíka. Þegar umboðsmaður Alþingis skilar áliti um það sem honum er sent þá er það ekki bindandi, það er bara virðing stjórnsýslunnar og í raun og veru virðing yfirvalda fyrir því áliti sem ræður því hvernig brugðist er við. Mér þykir það alveg við hæfi þegar kemur að ýmsum stofnunum. En þegar kemur að þessu þá erum við auðvitað að tala um heldur mikið grundvallaratriði í lagasetningu sem er samræmi við stjórnarskrá. Mér þætti mjög eðlilegt að það væri ekki bara aðstoð við að tryggja það, heldur væri það hluti af lagasetningarferlinu að tryggja að löggjöf sé í samræmi við stjórnarskrá. Mér þykir það sjálfsagt. Þótt Alþingi geti vissulega sett sér reglur og sett sér starfssvið getur Alþingi líka sleppt því ef það er ekki í stjórnarskrá. Alþingi getur hunsað umboðsmann Alþingis. Alþingi getur hunsað Ríkisendurskoðun. Alþingi getur og hefur sett lög sem fara í bága við stjórnarskrá. Það álít ég vera vandamál og mér finnst ekki gott að Alþingi geti það. Ég vil helst ekki að Alþingi geti það, ef hægt er að komast hjá því að gefa Alþingi það vald að brjóta stjórnarskrá án þess að breyta stjórnarskrá einfaldlega, ég vil heldur að þetta sé skýrt frá upphafi eins og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um. En það að þingið geti sett sér reglur sé ég svolítið sem vandann. Alþingi á ekki að mínu mati að geta ákveðið að brjóta stjórnarskrá. Þetta á ekki bara að vera aðstoð að mínu mati. Þetta á að vera skylda.