150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að flytja okkur þetta nefndarálit og þakka henni að sjálfsögðu og öðrum í velferðarnefnd fyrir mikla vinnu við að koma þessu máli til okkar. Málið hefur tekið töluverðum breytingum enda var mikil þörf á því. Það var ekki nógu langt gengið þegar frumvarpið var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og gott að Alþingi og nefndin skyldi taka í taumana og breyta því. Ég hef þó ákveðnar áhyggjur af málinu og mig langar að spyrja hv. þingmann út í tvö, þrjú atriði varðandi það.

Í fyrsta lagi er starfshlutfalli breytt úr 50% í 25% þannig að fyrirtækin virðast eiga rétt á 75% greiðslum. Eftir standa 25%. Mjög mörg fyrirtæki hafa engar tekjur og munu ekki fá krónu í kassann í dag, næstu vikur eða næstu mánuði. Hvað á að gera fyrir þau fyrirtæki, fyrir þá aðila sem hafa ekki neinar tekjur?

Í öðru er nú töluvert af fólki búið að vera á atvinnuleysisbótum og fer væntanlega að tapa bótarétti sínum á næstunni. Það er litla vinnu að fá akkúrat í dag. Hvað verður þá um það fólk sem er að fara af bótum og fær ekki atvinnu? Getur það haldið áfram á bótum? Fær það eitthvert nýtt úrræði eða hvernig verður tekið á því?